Við erum flestallar uppaldar í þessu liði

Aldís Ásta Heimisdóttir (nr. 3) fagnar með liðsfélögum sínum í …
Aldís Ásta Heimisdóttir (nr. 3) fagnar með liðsfélögum sínum í leikslok. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Handknattleikskonan unga Aldís Ásta Heimisdóttir var að vonum kát er mbl.is náði tali af henni skömmu eftir að KA/Þór varð Íslandsmeistari í handknattleik í fyrsta sinn.

Norðankonur voru tveimur mörkum yfir í hálfleik og höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda og unnu úrslitaeinvígið 2:0. „Ég hef aldrei upplifað annað eins, tilfinningin er sturluð,“ sagði Aldís sem er ein af mörgum leikmönnum liðsins sem eru uppaldir hjá félaginu. Tólf af fjórtán leikmönnum liðsins eru uppaldir en fyrir tímabilið slóst landsliðskonan Rut Arnfjörð Jónsdóttir í hópinn.

„Við fengum Rut og vissum að hún myndi koma okkur á hærri stall. Markmiðið var að gera okkar besta og komast í úrslitakeppnina, og þegar við unnum Fram í fyrsta skipti vissum við að við gætum farið alla leik. Svo þegar við urðum deildarmeistarar þá stefndum við bara á að verða Íslandsmeistarar.

Við erum flestar hérna uppaldar og höfum verið í KA/Þór lengi, það er björt framtíð á Akureyri og frábært að vinna þennan titil,“ sagði Aldís Ásta við mbl.is.

mbl.is