Álaborg í úrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar. mbl.is/Golli

Álaborg, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari, vann í dag magnaðan 35:33 endurkomusigur gegn París Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla og tryggði sér þar með sæti í úrslitum keppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Frakklandsmeistarar PSG voru með undirtökin í fyrri hálfleik og komust mest fjórum mörkum yfir, 4:8.

Eftir að hafa haldið fjögurra marka forystu sinni um nokkurt skeið, eða þar til þeir náðu 7:11 forystu, vann Álaborg sig betur inn í leikinn og var tveimur mörkum undir, 13:15, í hálfleik.

PSG byrjaði síðari hálfleikinn á svipuðum nótum og þann fyrri og voru fljótlega komnir í fimm marka forystu, 14:19.

Liðið hélt fimm marka forystunni allt þar til þeir komust í 17:22, þegar ótrúlegur viðsnúningur Álaborgar fór í hönd.

PSG skoraði þá aðeins tvö mörk á móti átta mörkum Álaborgar og danska liðið skyndilega komið í forystu, 25:24.

Eftir það var allt í járnum þó Álaborg hafi verið að ná eins marks forystu og PSG að jafna metin.

Seint í leiknum náði Álaborg tveggja marka forystu í fyrsta sinn honum, 32:30, og hleyptu PSG ekki nær en einu marki frá sér.

Vannst að lokum frábær tveggja marka sigur og Álaborg mætir þar með annað hvort Barcelona, sem Aron Pálmarsson leikur með en skiptir yfir til Álaborgar í sumar, eða Nantes í úrslitum Meistaradeildarinnar.

Er leikur Barcelona og Nantes í gangi núna og fer úrslitaleikurinn fram á morgun. Undanúrslitaleikirnir tveir og úrslitaleikurinn fara fram í Köln í Þýskalandi.

Besti árangur Álaborgar í Meistaradeildinni fyrir þetta tímabil var 16-liða úrslit og er því sannarlega um sögulegan árangur liðsins að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert