Valsmenn fengu króatíska andstæðinga

Valsmenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í síðasta mánuði.
Valsmenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla mæta króatískum andstæðingum í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í haust.

Valur var í neðri styrkleikaflokki fyrir dráttinn í fyrstu umferðina og dróst gegn Porec frá Króatíu. Leikirnir fara fram á bilinu 28. ágúst til 5. september og á sá fyrri, samkvæmt drættinum, að fara fram í Króatíu.

Í Evrópudeildinni eru tvær umferðir í undankeppni áður en riðlakeppni með 24 liðum hefst í október.

Meðal liðanna sem Valsmenn hefðu getað dregist gegn voru Rhein-Neckar Löwen frá Þýskalandi, sem Ýmir Örn Gíslason leikur með, Kadetten Schaffhausen frá Sviss, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, og Alpla Hard frá Austurríki, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar.

mbl.is