Þórir með 600 leiki fyrir Noreg

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í 600. leiknum í morgun.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í 600. leiknum í morgun. AFP

Þórir Hergeirsson náði þeim merka áfanga að vera á hliðarlínunni í 600. skipti með norsku landsliði er hann stýrði hinu norska A-landsliði kvenna til 26:22-sigurs á Ungverjalandi í átta liða úrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó í morgun.

Þórir hefur starfað fyrir norska handknattleikssambandið frá árinu 2009 og stýrt A-landsliðinu í 264 leikjum, verið aðstoðarþjálfari í 191 leik hjá Marit Breivik og stýrt yngri landsliðum þjóðarinnar í 144 leiki.

Á þeim tíma hafa lið Þóris unnið 17 medalíur á stórmótum og þar á meðal tvö ólympíugull, tvo heimsmeistaratitla og sex Evrópumeistaratitla.

Nora Mørk, ein besta handboltakona heims, er á meðal þeirra sem hafa mikið álit á Þóri. „Hann hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir norskan handbolta. Hann hefur sjálfur þróast sem manneskja. Hann fór úr því að vera strangur, og maður var aðeins hræddur við hann, í það að vera mannlegri. Hann er alltaf til staðar fyrir leikmenn,“ sagði Mørk við Verdens Gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert