Haukar í góðum málum eftir stórsigur

Darri Aronsson var markahæstur Hauka í dag.
Darri Aronsson var markahæstur Hauka í dag. Eggert Jóhannesson

Haukar eru hér um bil komnir áfram í þriðju umferð Evrópubikarsins í handknattleik karla eftir gífurlega öruggan 25:14 sigur gegn kýpverska liðinu Parnassos Strovolu í fyrri leik liðanna í annarri umferð keppninnar ytra í dag.

Haukar voru með yfirhöndina allan leikinn þó leikurinn hafi verið öllu jafnari í fyrri hálfleik.

Staðan í leikhléi 13:9, Haukum í vil, en í síðari hálfleik gengu Hafnfirðingarnir einfaldlega frá heimamönnum og unnu að lokum 11 marka sigur.

Darri Aronsson var markahæstur Hauka með sex mörk og skammt þar á eftir kom Stefán Rafn Sigurmannsson með fimm mörk.

Aron Rafn Eðvarðsson fór á kostum í markinu og varði 15 af 30 skotum sem hann fékk á sig og var þannig með slétta 50 prósent markvörslu.

Síðari leikur liðanna fer fram á sama stað, á Níkósíu á Kýpur, á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert