KA vann Hauka eftir ótrúlega dramatík

KA-maðurinn Allan Nordberg reynir að komast framhjá Haukamanninum Stefáni Rafni …
KA-maðurinn Allan Nordberg reynir að komast framhjá Haukamanninum Stefáni Rafni Sigurmannssyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

KA er komið í 1:0 í einvígi sínu gegn Haukum í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta eftir ótrúlegan 30:29-útisigur í kvöld. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmarkið úr víti eftir að leiktíminn var liðinn. 

Mikið jafnræði var með liðunum framan af leik og jafnt á öllum tölum fyrri hluta fyrri hálfleiks. Haukar komust tveimur mörkum yfir í fyrsta skipti á 17. mínútu, 9:7. KA-menn voru snöggir að jafna í 10:10 í kjölfarið þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Þrátt fyrir að Stefán Rafn Sigurmannsson hefi fengið beint rautt spjald á 22. mínútu fyrir að slá til Ólafs Gústafssonar voru það Haukar sem voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14. Haukar gátu helst þakkað Ólafi Ægi Ólafssyni sem skoraði sex mörk í fyrri hálfleik. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm fyrir KA.

Haukar fóru betur af stað í seinni hálfleik og komust fjórum mörkum yfir í upphafi hans, 19:15. KA gekk illa að minnka muninn og hann var áfram 3-4 mörk næstu mínútur. Þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður var staðan 21:17.

KA minnkaði muninn í tvö mörk stuttu síðar, 22:20, og þegar tíu mínútur voru til leiksloka var KA búið að jafna í 23:23. KA komst síðan í 24:23 en Haukar jöfnuðu jafnóðum, 24:24. Þeir komust svo í 27:25 þegar fjórar mínútur voru eftir og virtust vera að sigla sigrinum í höfn.

KA neitaði hinsvegar að gefast upp og með góðum kafla tókst gestunum að komast yfir þegar rúm mínúta var eftir, 29:28. Haukar jöfnuðu í 29:29 en Óðinn Þór Ríkharðsson tryggði KA sigurinn með marki úr víti eftir að leiktíminn var liðinn. 

Óðinn Þór var markahæstur hjá KA með níu mörk, þar af þrjú úr víti, og Ólafur Gústafsson gerði sjö. Ólafur Ægir Ólafsson og Darri Aronsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Hauka. 

Annar leikurinn fer fram á Akureyri á mánudaginn kemur og getur KA tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri.

Haukar 29:30 KA opna loka
60. mín. Óðinn Þór Ríkharðsson (KA) skorar úr víti KA vinnur eftir lygilega dramatík. Þvílíkur leikur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert