Alls ekki okkar síðasti leikur í Safamýri

Hildur Björnsdóttir sætir að marki Fram í kvöld en Perla …
Hildur Björnsdóttir sætir að marki Fram í kvöld en Perla Ruth Albertsdóttir er til varnar. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta eru alltaf svo jafnir leikir en við erum að láta hana verja allt of mikið í kvöld,“ sagði Hildur Björnsdóttir, fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is eftir 22:25-tap fyrir Fram í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í Safamýrinni í kvöld. Hafdís Renötudóttir átti stórleik í marki Fram og varði 17 skot.

Hildur vildi sjá Valskonur klára færin betur og standa betri vörn sömuleiðis. „Við erum að fá helling af færum en við þurfum að slaka aðeins á og nýta þau betur. Svo urðum við aðeins eins og gatasigti í vörninni. Við verðum að loka meira og þá mun þetta ganga betur.“

Rétt eins og í fyrstu tveimur leikjunum var heimaliðið með 3-4 marka forskot í seinni hálfleik en Valsliðið neitaði að gefast upp og minnkaði í eitt mark. Fram sigldi hinsvegar sigrinum í höfn í lokin.

„Þetta eru svo jöfn lið. Í seinasta leik vorum við 3-4 mörkum yfir og í þessum voru þær 3-4 yfir en svo kemur hitt liðið með áhlaup. Þetta eru tvö jafngóð lið og leikirnir verða svona.“

Fram getur orðið Íslandsmeistari á heimavelli Vals á sunnudag en Hildur segir dagskrána hjá Val innihalda aðra heimsókn í Safamýri í oddaleik. „Við mætum næst þegar við erum hér og tökum þetta,“ sagði Hildur og var ákveðin í svörum aðspurð hvort þetta væri síðasti leikur Vals í Safamýri. „Alls ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka