Tvöfaldur sigur Vals annað árið í röð

Íslandsmeistararnir ærast af fögnuði.
Íslandsmeistararnir ærast af fögnuði. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valur varð í dag Íslandsmeistari karla í handknattleik eftir sigur á ÍBV 31:30 í fjórða úrslitaleik Íslandsmótsins í Vestmannaeyjum. 

Valur sigraði þar með 3:1 í úrslitarimmunni og varði Íslandsmeistaratitil sinn. Valur varð bikarmeistari fyrr í vetur og er því Íslands- og bikarmeistari annað árið í röð en slík afrek eru sjaldgæf í boltagreinunum en ekki óþekkt hérlendis. 

Leikurinn í dag var sveiflukenndur og dramatískur rétt eins og síðasti leikur liðanna á Hlíðarenda. Í báðum tilfellum tókst Val að landa sigrum á seiglunni en litlu mátti muna í báðum tilfellum.  

Valur lék mjög vel um tíma í fyrri hálfleik og náði þá fjögurra marka forskoti 11:7. Liðið fékk tækifæri til að ná fimm marka forskoti en það gekk ekki. Valsmenn keyrðu hratt þegar færi gafst og Eyjamenn áttu erfitt með að verjast því. Hornamaðurinn Stiven Valencia naut sín mjög vel í hröðum sóknum Vals og skoraði sex mörk í fyrri hálfleik. 

Þá tóku Eyjamenn við sér og komu sér inn í leikinn fyrir alvöru fyrir hlé. Náðu þeir að komast marki yfir en Valur var þó með eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik 16:15.

Róbert Aron Hostert skýtur að marki í dag.
Róbert Aron Hostert skýtur að marki í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Í síðari hálfleik náði Valur aftur frumkvæðinu en uppgjöf er lítt þekkt fyrirbæri hér á Heimaey. Þeim tókst aldrei að hrista Eyjamennina af sér. ÍBV jafnaði margoft í síðari hálfleik en náðu ekki að komast yfir. Valur var með þriggja marka forskot þegar tólf mínútur voru eftir og virtist þá vera með tök á leiknum en ÍBV náði samt að jafna. Björn Viðar Björnsson varði vel í marki ÍBV í síðari hálfleik og það hafði sitt að segj. Á lokakaflanum var spennan mikil en reyndir leikmenn Vals eins og Magnús Óli Magnússon og Róbert Aron Hostert voru þá mjög drjúgir og skoruðu mikilvægt mörk. 

Leikur frákasta á lokamínútunni

Lokakaflinn var nánast farsakenndur.  Valur fór í sókn með tveggja marka forskot en tapaði boltanum þegar 90 sekúndur voru eftir. Róbert Sigurðarson skoraði af línunni fyrir ÍBV. Valur fékk víti þegar tæpar 40 sekúndur voru eftir. Jokanovic varði vítið frá Benedikt Gunnari Óskarssyni en boltinn endaði hjá Valsmönnum. Snorri tók leikhlé en eftir hléið varði Jokanovic aftur en í annað sinn á lokamínútunni náði Valur frákastinu. Þá fékk Valur aftur víti og Arnór Snær Óskarsson tryggði þeim sigurinn af vítalínunni. 

Bæði liðin spiluðu hörkuvörn á löngum köflum. Erfitt reyndist fyrir liðin að skora úr uppstilltum sóknum en klókindi leikmanna náðu þó að skapa góð færi við og við. Eins og áður segir skiptu reyndir menn eins og Róbert og Magnús máli í síðari hálfleik og Björgvin Páll átti einnig rispur í markinu. 

Markvarslan var afar góð hjá ÍBV í síðari hálfleik. Rúnar Kárason reyndi eins og hann gat í sókninni þótt hann sé meiddur og skilaði sínu. Elmar Erlingsson átti mjög skemmtilega innkomu um tíma hjá ÍBV. Mikið mæddi á Theodór Sigurbjörnssyni í hægra horninu. Hann hefur oft nýtt færin betur en stundum þurfti hann að fara inn úr horninu eftir að hafa fengið sendingar frá útileikmönnunum sem rötuðu ekki almennilega á hann. 

ÍBV 30:31 Valur opna loka
60. mín. Arnór Snær Óskarsson (Valur) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert