„Stolt“ nær ekki utan um hvernig Snorra er innanbrjósts

Snorri Steinn Guðjónsson yfirvegaður á hliðarlínunni í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson yfirvegaður á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ólympíuverðlaunahafinn Snorri Steinn Guðjónsson byrjaði þjálfaraferilinn í meistaraflokki ekki með neinni flugeldasýningu þegar atvinnumannaferlinum í handboltanum sleppti. 

Hann hefur hins vegar sýnt rækilega hvað hann kann fyrir sér og fagnaði í dag Íslandsmeistaratitli sem þjálfari Vals annað árið í röð þegar Valur vann ÍBV 31:30 í fjórða úrslitaleiknum og samtals 3:1 í úrslitarimmunni. 

„Ekki hugmynd,“ svaraði Snorri og hló þegar mbl.is spurði hann hvað hefði ráðið úrslitum í dramatískum leik í Eyjum í dag. „Þetta fellur einhvern veginn. Kannski var það Bjöggi. Ég veit það ekki. Ég get ekki greint þennan leik núna. Komdu með einhverja aðra spurningu.“

Í framhaldi má þá spyrja hvernig það gangi að halda einbeitingu í andrúmslofti eins og því sem myndast í úrslitarimmunni? Ekki síst í Vestmannaeyjum. „Stundum gengur það og stundum ekki. Mér fannst þetta vera geggjaður leikur tveggja góðra liða. Mér fannst þessi leikur betri en sá síðasti í Valsheimilinu þar sem mörg tæknimistök voru gerð. Mín tilfinning er sú að þau hafi verið færri í þessum leik. Þetta eru tvö geggjuð lið. Ég sagði líka við mína menn að fyrsti leikurinn [þar sem Valur vann stórsigur] væri undantekning. Mér finnst stórkostlegt að ná að klára dæmið hérna í dag.“

Snorri Steinn Guðjónsson fyrir framan varamannabekkinn og stuðningsfólk Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson fyrir framan varamannabekkinn og stuðningsfólk Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valur er Íslands- og bikarmeistari tvö tímabil í röð undir stjórn Snorra sem er mikið afrek. Er það ekki nokkuð sem þjálfari má monta sig af? 

„Jú jú, auðvitað er ég gríðarlega stoltur af þessu. Við höfum unnið alla titlana sem eru í boði á þessum tímapunkti. Það verður erfitt að toppa það enda er meira en að segja það að vinna titil eftir titil. Þegar það tekst þá gefur það öllunum hinum titlunum meiri þýðingu. Að segjast vera stoltur er sennilega ekki nægilega sterk lýsing,“ sagði Snorri í samtali við mbl.is. 

Íslands- og bikarmeistarar Vals í Eyjum í dag.
Íslands- og bikarmeistarar Vals í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert