Íslenska liðið fagnaði sigri eftir vítakeppni

U18 ára landslið karla í handbolta.
U18 ára landslið karla í handbolta. Ljósmynd/HSÍ

Ísland leikur um níunda sætið á EM U18 ára landsliða karla í handbolta í Svartfjallalandi eftir sigur á Slóveníu í æsispennandi leik í dag. Lokatölur eftir venjulegan leiktíma voru 26:26 og réðust úrslitin því í vítakeppni, þar sem íslensku strákarnir voru sterkari.

Með sigrinum tryggði Ísland sér leik gegn Færeyjum eða Svartfjallalandi á morgun, þar sem níunda sætið er undir.

Íslenska liðið byrjaði mun betur í dag og var staðan í hálfleik 14:9. Slóvenar neituðu hinsvegar að gefast upp og með góðum seinni hálfleik tókst liðinu að jafna og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Þar skoraði Ísland úr fjórum vítum og Slóvenía þremur. Breki Hrafn Árnason varði tvö víti í vítakeppninni og tryggði íslenska liðinu vítakeppnina með góðri vörslu í blálokin. Var hann valinn maður leiksins.

Mörk Íslands:

Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Andri Fannar Elísson 4, Andrés Marel Sigurðarson 4, Sæþór Atlason 4, Atli Steinn Arnarson 3, Elmar Erlingsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 2, Össur Haraldsson 1.

mbl.is