Stórleikur Elvars dugði ekki til

Elvar Ásgeirsson í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Ásgeirsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elvar Ásgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik, fór fyrir Íslendingaliði Ribe-Esbjerg þegar það mátti sætta sig við 33:38-tap fyrir Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Elvar skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar að auki fyrir liðsfélaga sína.

Ágúst Elí Björgvinsson varði fimm skot í marki Ribe-Esbjerg gegn sínum gömlu félögum en Arnar Birkir Hálfdánsson komst ekki á blað hjá liðinu.

Ribe-Esbjerg heldur þar með kyrru fyrir í níunda sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 14 stig eftir 15 leiki.

mbl.is