Sannfærandi Valssigur í 80 marka toppslag

Magnús Óli Magnússon sækir að marki FH í kvöld. Einar …
Magnús Óli Magnússon sækir að marki FH í kvöld. Einar Bragi Aðalsteinsson horfir á eftir honum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur náði í kvöld átta stiga forskoti á toppi Olísdeildar karla í handbolta með því að sigra FH með sannfærandi hætti á heimavelli, 44:36.

Valsmenn náðu undirtökunum strax í upphafi leiks með fyrstu fjórum mörkum leiksins. Þá tók Sigursteinn Arndal þjálfari FH leikhlé og nokkrum mínútum síðar munaði tveimur mörkum, 8:6.

Valur var hins vegar áfram með undirtökin og átti FH erfitt með að hemja eldsnöggan og góðan sóknarleik Valsmanna. Að lokum munaði sex mörkum í hálfleik, 24:18.

Benedikt Gunnar Óskarsson hjá Val átti stórleik í fyrri hálfleik og skoraði tíu mörk, öll á fyrsta kortérinu. Hann skoraði ekkert seinni hluta fyrri hálfleiks, en það kom ekki að sök. Aðrir leikmenn Vals tóku við.

Valsmenn héldu undirtökunum áfram í seinni hálfleik og náðu mest átta marka forskoti, 27:19. FH-ingar sóttu aðeins í sig veðrið, en illa gekk að saxa verulega á forskot meistaranna. Munaði sjö mörkum þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður, 32:25.

Valsmenn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum, náðu aftur átta marka forskoti og sigldu afar sannfærandi sigri í höfn.

Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur hjá Val með 13 mörk og Stiven Tobar Valencia gerði sjö. Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot í markinu, þar af eitt víti. Ásbjörn Friðriksson skoraði níu fyrir FH, þar af sex úr vítum, og Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sjö.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 44:36 FH opna loka
60. mín. Einar Bragi Aðalsteinsson (FH) skýtur framhjá Vel framhjá.
mbl.is