Guðmundur: Hef aldrei lent í öðru eins

Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrir Fredericia í Danmörku.
Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrir Fredericia í Danmörku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil veikindi herja á herbúðir danska handknattleiksfélagsins Fredericia þar sem Guðmundur Þórður Guðmundsson er við stjórnvölinn.

Guðmundur, sem er 62 ára gamall, hefur gert frábæra hluti með danska úrvalsdeildarfélagið síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu árið 2022.

Fredericia vann nauman útisigur gegn Ribe-Esbjerg á laugardaginn, 30:29, en liðið situr í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 28 stig, þremur stigum minna en topplið Aalborg eftir átján umferðir.

Án tíu leikmanna

„Við höfum verið án tíu leikmanna á æfingum alla vikuna vegna veikinda,“ sagði Guðmundur í samtali við Fredericia Avisen eftir leikinn gegn Ribe-Esbjerg.

„Þetta var mjög erfið vika og leikmennirnir sýndu ótrúlegan karakter og hjarta gegn Ribe-Esbjerg. Við höfum nánast ekkert getað æft, ekki af fullum krafti, og þeir leikmenn sem hafa verið að jafna sig hafa lítið getað æft sökum orkuleysis.

Ég hef aldrei lent í öðru eins sem félagsliðaþjálfari á mínum ferli. Ég hef lent í svona hlutum með landslið en þá voru aðstæðurnar öðruvísi. Þess vegna er ég ótrúlega sáttur með frammistöðu liðsins og sigurinn,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert