Íslendingar eru ofur-Norðmenn

Íslendingar fagna marki í leiknum gegn Noregi 4. júní, sem ...
Íslendingar fagna marki í leiknum gegn Noregi 4. júní, sem stjórnendur þáttarins sáu. mbl.is/Eggert

„Íslendingar eru eins og ofur-Norðmenn,“ segir þáttastjórnandi í sérstökum HM-hlaðvarpsþáttum norska fjölmiðilsins TV2. Stjórnendur og gestur þáttarins lofsama Ísland og íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í spjalli sínu um D-riðil HM í Rússlandi.

„Eitt júlíkvöld í Frakklandi átti íslenska knattspyrnuævintýrinu að ljúka, en íslensku víkingarnir voru sérdeilis ekki hættir,“ segir Simen Stamsø-Møller, knattspyrnumaður og annar stjórnenda þáttarins, þegar hann hefur umræðuna um Ísland.

„Í riðli með Króatíu, Úkraínu og Tyrklandi hefðu Íslendingarnir átt að berjast um umspilssæti við þau tvö síðastnefndu. Þannig fór þó ekki því bláklæddu strákarnir unnu riðilinn, tveimur stigum á undan Króatíu. Ísland spilar sinn fyrsta leik á HM gegn Argentínu í Moskvu 16. júní, daginn fyrir þjóðhátíðardag Íslendinga. Í ljósi þess að Ísland spilaði Englandsleikinn fræga á mánudegi kann þessi helgi að verða sú sjúkasta í manna minnum á Íslandi,“ segir Stamsø-Møller.

Rjóminn fleyttur af og sendur norður

Þeir Jesper Mathisen, fyrrverandi leikmaður Start í Noregi, og Øyvind Alsaker, fjölmiðlamaður og sérstakur gestur þáttarins, ræða svo um ferð sína til Ísland þar sem þeir sáu 3:2-sigur Noregs á Laugardalsvelli í næstsíðasta leik fyrir HM. Þeir gefa eina Michelin-stað Íslands, Dill, ekki háa einkunn og blöskrar algjörlega verðið sem þarf að greiða til að fara í Bláa lónið. Loks grípur Stamsø-Møller inn í:

„Nei nú þykir mér nóg um þessa neikvæðni í garð Íslands og Íslendinga því mín upplifun af Íslendingum svona almennt er að þeir séu ofur-Norðmenn.“ „Frábært fólk,“ skýtur Mathisen inn í áður en Stamsø-Møller heldur áfram: „Þeir eru eins og við Norðmenn nema að búið er að fleyta rjómann ofan af mjólkinni [innsk.: orðrétt talar hann um að „skilja illgresið frá hveitinu“] og senda hann norður [til Íslands].“

Greinin heldur áfram undir myndinni.

Jesper Mathisen var í Frakklandi og sá Birki Bjarnason skora ...
Jesper Mathisen var í Frakklandi og sá Birki Bjarnason skora gegn Cristiano Ronaldo og félögum í fyrsta leik Íslands á stórmóti. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ógleymanleg upplifun á fyrsta leik á EM

Stamsø-Møller segir Íslendinga alltaf standa sig svo vel í íþróttum, sérstaklega boltaíþróttum, og ýjar að því að afrek Íslands á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum sé það rosalegasta í sögu knattspyrnulandsliða. Mathisen tekur heils hugar undir það:

„Ég var í Frakklandi og sá Ísland spila sinn fyrsta leik í lokakeppni gegn Portúgal. Það má segja að sá leikur líkist mikið Argentínuleiknum þar sem þeir munu mæta Leo Messi, því þar léku þeir gegn hinum risanum í heimsboltanum, Cristiano Ronaldo. Það var algjörlega ógleymanleg upplifun að sjá þann leik. Birkir Bjarnason að jafna og þáverandi Bodø-Glimt-markmaðurinn Hannes Halldórsson í lykilhlutverki. Þetta var algjör öskubuskuleikur og þeir sýndu að þeir smáu geta strítt þeim stóru í þeim leik. Risastórt afrek,“ segir Mathisen.

Leikmenn vildu fyrst fá Birki í burtu

Félagarnir velja einn leikmann úr hverju liði á HM sem „sinn mann“ á mótinu og í íslenska liðinu er það leikjahæsti maður hópsins, Birkir Már Sævarsson, sem verður fyrir valinu. Birkir lék í sex ár með Brann í norsku úrvalsdeildinni, árin 2008-2014.

Birkir Már Sævarsson ræðir við blaðamann á æfingu íslenska landsliðsins ...
Birkir Már Sævarsson ræðir við blaðamann á æfingu íslenska landsliðsins í Rússlandi. Hann er mættur á sitt annað stórmót og virðist hafa komið Norðmönnum mikið á óvart. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Hvorki okkur né hann grunaði að hann þetta myndi gerast þegar hann mætti á æfingasvæði Brann í fyrsta skipti fyrir 10 árum. Hugsið ykkur að ná svo miklu út úr þetta takmörkuðum knattspyrnuhæfileikum. Það sem hann hefur afrekað krefst mikillar virðingar. Hann skoraði sjálfsmark gegn Austurríki, líklega hans versta augnablik á ferlinum. Ísland komst þó áfram og spilaði gegn Englandi þar sem hann upplifði sitt besta augnablik á ferlinum. Hann á 79 landsleiki með Íslandi en ekki nema 116 leiki og 15 mörk með Brann,“ segir Stamsø-Møller. Mathisen tekur svo til máls:

„Þegar hann [Birkir] kom til Björgvinjar og var með í reitabolta á æfingu þá fóru hinir leikmennirnir strax að efast um hann því hann náði ekki einni einustu sendingu. Hann var gjörsamlega ónothæfur og þeir vildu bara fá hann burt. Seinna sáu þeir þó hlaupagetuna og áttuðu sig á því að það væri hægara sagt en gert að komast fram hjá honum. Gríðarlega takmarkaður leikmaður en Ísland á ekki annan leikmann í þessari stöðu. Nú spilar hann með Val á Íslandi og er aftur á leið á stórmót. Þetta er eitt það skemmtilegasta við HM. Leikmenn á þessum stalli að spila gegn þeim allra bestu i heimi. Við munum því fylgjast sérstaklega vel með Birki, frábær gaur... og sæmilegur knattspyrnumaður sem kreist hefur allt úr sínum ferli,“ segir Mathisen.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn með því að smella hér en þar er einnig rætt um hve margir leikmenn í íslenska HM-hópnum hafi komið við í Noregi á sínum ferli, þó að Samúel Kári Friðjónsson sé sá eini sem spili þar núna. Norðmenn hafi því sterka tengingu við íslenska liðið og vonast þríeykið í þættinum til þess að Ísland komist upp úr sínum riðli, þó að það spái Argentín og Króatíu sæti í 16-liða úrslitunum.

mbl.is