Spánverjar reka landsliðsþjálfarann

Julen Lopetegui var rekinn í dag og eru Spánverjar því …
Julen Lopetegui var rekinn í dag og eru Spánverjar því þjálfaralausir í Rússlandi eins og sakir standa. AFP

Spænska knattspyrnusambandið hefur rekið Julen Lopetegui, þjálfara spænska landsliðsins úr starfi en þetta var tilkynnt núna rétt í þessu. Lopetegui skrifaði undir samning við spænska stórliðið Real Madrid í gær en Luis Ruabiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins var brjálaður yfir ákvörðun Lopetegui sem skrifaði nýlega undir samning við spænska knattspyrnusambandið til ársins 2020.

Spánverjar eru mættir til Rússlands til þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst á morgun þegar heimamenn mæta Sádi-Arabíu í Moskvu. Það er allt brjálað á Spáni þessa stundina en spænska liðið mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á mótinu þann 15. júní næstkomandi í Sochi.

Spánn leikur í B-riðli heimsmeistaramótsins ásamt Portúgal, Marokkó og Íran en spænska liðið hefur litið mjög vel út í undanförnum leikjum og er til alls líklegt á heimsmeistaramótinu. Ekki er ennþá ljóst hver mun taka við liðinu af Lopetegui.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert