Slógu öll vopn úr þeirra höndum

Freyr Alexandersson brosmildur í Kabardinka í dag.
Freyr Alexandersson brosmildur í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta kom mikið við sögu í leik Íslands og Argentínu í Moskvu í gær, bæði í miklum undirbúningi fyrir leikinn og svo í leiknum sjálfum.

Hann var „aðalnjósnari" Íslands hvað varðaði argentínska liðið og aflaði ítarlegra upplýsinga um leik þess fyrir Heimi Hallgrímsson þjálfara og Helga Kolviðsson aðstoðarþjálfara til að vinna úr. Því til viðbótar var Freyr í því hlutverki að sitja uppi í stúku í fyrri hálfleik og senda skilaboð á bekkinn um taktíska hluti sem hann sá þaðan með meiri yfirsýn en þjálfarar liðsins.

Freyr sagði í spjalli við mbl.is í Kabardinka í gær að ferlið fyrir Argentínuleikinn hefði verið geysilega langt og viðamikið.

„Þetta var fyrsti leikurinn í mótinu svo við þurftum að undirbúa okkur öðruvísi en fyrir hina tvo leikina, þar sem við erum nú þegar komnir með upptökur af leik Króatíu og Nígeríu hérna í mótinu. Þetta var mikill undirbúningur því Sampaoli þjálfari var búinn að nota 50 leikmenn síðustu sextán mánuðina, nota fjögur leikkerfi, svo við þurftum að vera með allt klárt.“

Áttuðu sig ekki á að við fylgdumst með viðtölum

„En þegar fór að nálgast mótið þrengdum við niður einbeitingarrammann og vorum orðnir nokkuð vissir um að þeir myndu spila eins og þeir spiluðu á móti okkur fyrir viku síðan. Leikurinn sem þeir spiluðu við Haíti í lok maí ýtti undir það og það var eins og þeir hefðu ekki áttað sig á að við fylgdumst með öllum viðtölum sem þeir fóru í og þar sögðu þeir hluti sem ýttu undir að þeirra leikur væri að fara í þessa átt.

Við fylgdumst með eins miklu efni og við gátum og hjálpuðumst að við það. Síðan undirbjuggum við okkur vel undir hugarfarið þeirra og hvernig ætti að nálgast það. Hvernig þeir nálguðust leikinn í gær, mættu seint í upphitunina og svoleiðis, það kom okkur ekkert á óvart. Þetta var engin vanvirðing við okkur, þetta er bara kúltúrinn þeirra. Við reynum að láta ekkert koma okkur á óvart.“

Kom á óvart að þeir brutu ekki upp leikinn

Leikaðferð Argentínu gekk að langmestu leyti út á að koma boltanum á Messi. Það hefur væntanlega ekki komið ykkur á óvart?

„Leikfræðin þeirra kom okkur ekkert á óvart en hún gengur mikið út á að Messi fái boltann. En það sem kom okkur á óvart var samt að þeir reyndu ekki að brjóta upp leikinn, þrátt fyrir að þeir hefðu svo mikið af vopnum til þess. Því vorum við Heimir og Helgi að bíða eftir allan leikinn, hvenær kæmi það og hvernig myndum við bregðast við því, en svo bara kom það aldrei.

Aron Einar Gunnarsson lokar á sendingu frá Lionel Messi í …
Aron Einar Gunnarsson lokar á sendingu frá Lionel Messi í eitt skiptið af mörgum í leiknum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mér fannst drengirnir slá öll vopn úr þeirra höndum. Það er aldrei hægt að taka X-faktorinn af Lionel Messi. Það er bara ekki hægt. En hvernig við héldum aftur af honum var stórkostlegt. Þar voru Emil og Aron í stórum hlutverkum og svo þeir Ragnar og Kári, sem pössuðu upp á að það væru aldrei meira en 10 metrar á milli þeirra og Emils og Arons.

Það gerðist í eitt einasta skipti í leiknum, sem er framúrskarandi.

En ég vil taka það fram að þetta hefði ekki verið hægt nema í samvinnu við bakverðina og í samvinnu við senterinn. Þetta er bara liðsheildin okkar sem við höfum svo oft séð og talað um.“

Ekki hægt að láta einn bera ábyrgð á Messi

En Messi reyndi og reyndi.....

„Já, og þeir voru alltaf að reyna að koma sendingunum til hans þannig að þá hægðist á spilinu, þannig að við gátum fært mannskapinn til, eins og við vonuðumst til að við gætum gert.“

Það var heldur ekki reynt að láta einn mann elta Messi, heldur voru margir sem deildu með sér ábyrgðinni á honum, ekki satt?

„Jú, Heimir tók þá ákvörðun snemma í ferlinu að það kæmi ekki til greina að láta einn mann vera ábyrgan á Lionel Messi. Ég var algjörlega sammála þeirri ákvörðun frá upphafi.“

Emil Hallfreðsson var í lykilhlutverki við að loka á Messi …
Emil Hallfreðsson var í lykilhlutverki við að loka á Messi og sendingarnar til hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sendi skilaboð og myndir úr stúkunni

En síðan nýttuð þið samskiptatæknina á nýjan hátt, með þig uppi í stúku, ekki satt? Hvernig gekk það fyrir sig?

„Við höfum haft það þannig að ég hef verið uppi í stúku og komið niður í hálfleik, og verið síðan á bekknum, en nú er FIFA komið með nýja tækni að það má vera í beinu talsambandi niður á bekkinn, og að vera þar með spjaldtölvu svo hægt sé að senda þangað myndir úr leiknum. Það er alveg nýtt og við við notuðum okkur þetta í leiknum.

Það gekk þannig fyrir sig að ég talaði beint við Gumma (Guðmund Hreiðarsson markvarðaþjálfara) og Gummi tók á móti upplýsingunum en Helgi (Kolviðsson aðstoðarþjálfari) var með spjaldtölvu og fékk sendar myndir frá okkur. Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks fór ég niður í klefa og setti myndir á skjá þar.

Við erum ekki að ofkeyra þetta, erum bara með myndirnar klárar ef ákveðið atvik kemur upp í klefanum í hálfleik getum við hent því upp.“

Stóru samböndin langt á undan okkur

Þetta er þá tækni sem á eftir að þróast mikið, er það ekki ljóst?

„Þetta hefur þróast mjög hratt. Við erum búnir að fara á tvær ráðstefnur varðandi þessa tækni. Stóru samböndin eru langt á undan okkur í þessu og fyrir næsta heimsmeistaramót þurfum við að hafa hraðar hendur til að halda í við aðra. Ef þú vinnur vel með þetta og ferð rétt með það geturðu náð góðu forskoti. Svona er fótboltinn, hann er alltaf að þróast og við þurfum að elta þetta til að vera með," sagði Freyr Alexandersson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert