Bullaði bara eitthvað á spænsku

Alfreð Finnbogason léttur í bragði á blaðamannafundinum í dag.
Alfreð Finnbogason léttur í bragði á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert

„Þetta var allt annað en venjulegur dagur í vinnunni,“ segja Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson þegar þeir rifja upp síðasta laugardag, leikdaginn gegn Argentínu á HM í knattspyrnu.

„Þetta var ótrúleg upplifun, fyrsti leikur Íslands á heimsmeistaramóti er eitthvað sem allir í hópnum eru stoltir af að hafa tekið þátt í. Auðvitað voru þarna stór augnablik og eitthvað sem við munum aldrei gleyma, en þetta snýst um að leggja það til hliðar núna og einbeita okkur að næsta leik,“ segir Hannes, en þeir Alfreð ræddu við fjölmiðla á blaðamannafundi í Kabardinka í morgun.

„Ég er sammála Hannesi. Þetta er stærsta svið sem hægt er að vera á í fótbolta og eitthvað sem mun fylgja okkur sem leikmönnum eftir mótið. Spennustigið var gríðarlega hátt hjá okkur, enda fyrsti leikur á HM, og erfiðara að ná ró en fyrir marga aðra leiki. Þetta var frábært stig en við förum ekki áfram á einu stigi. Maður er alltaf dæmdur af síðasta leik og við þurfum að vera fljótir að ná okkur niður,“ segir Alfreð.

Alfreð fagnaði fyrsta marki Íslands á HM, sem hann skoraði, af mikilli innlifun og öskraði meðal annars einhver orð framan í sjónvarpsupptökuvélina. Hann man hins vegar ekkert hvað það var sem hann sagði:

„Því miður get ég bara ekki svarað því. Ég bullaði bara eitthvað á spænsku, ekkert sem „meikar sens“, í hita leiksins. Tökuvélin beið mín þarna og mér fannst ég þurfa að segja eitthvað við hana, en það kom ekkert af viti út úr því,“ segir Alfreð og brosir, en hann var fljótur að ná tökum á spænsku sem leikmaður Real Sociedad á sínum tíma.

Læra af leiknum við Ungverja

Eins og Hannes og Alfreð benda báðir á er mikilvægt að einbeitingin snúist núna að leiknum við Nígeríu á föstudaginn. Ísland átti líklega sinn slakasta eða næstslakasta leik á EM fyrir tveimur árum þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Ungverjaland í öðrum leik sínum, eftir að hafa náð í mjög gott stig gegn Portúgal í fyrsta leik, rétt eins og liðið gerði gegn Argentínu nú. Má draga einhvern lærdóm af því hvernig fór gegn Ungverjum á EM?

Hannes Þór Halldórsson átti frábæran leik gegn Argentínu síðasta laugardag. …
Hannes Þór Halldórsson átti frábæran leik gegn Argentínu síðasta laugardag. Hér svarar hann spurningu á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Eggert

„Það er ótrúlega margt sem er svipað með þessum tveimur mótum. Ég held að þessi leikur við Ungverja sé virkilega mikil reynsla fyrir okkur. Þar vorum við komnir í sömu stöðu, með sterkt stig og sigur hefði komið okkur áfram. Það er reyndar ekkert í höfn núna ef við vinnum. Þarna vorum við þrúgaðir af spennu, vitandi að við gætum komist áfram, og að sama skapi erum við komnir í mjög góða stöðu ef við vinnum á föstudaginn. Við lærðum af þessu, að fara í svona leik eftir sterkt stig, og það hjálpar okkur að ná spennustiginu á réttan stað. Við vorum „passívir“ gegn Ungverjum og spennustigið vanstillt,“ segir Hannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert