Sé ekki að Argentína fari sigurlaus af HM

Kári Árnason á blaðamannafundinum í Kabardinka í dag.
Kári Árnason á blaðamannafundinum í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert

Ljóst er að leikur Argentínu og Nígeríu skiptir miklu máli varðandi möguleika Íslands á að komast í 16-liða úrslit HM í knattspyrnu. Sigur á Króatíu myndi ekki endilega duga Íslandi.

Takist Íslandi ekki að vinna Króatíu er liðið úr leik. Ef Nígería vinnur Argentínu á Ísland ekki heldur neina möguleika á að komast í 16-liða úrslitin. Geri liðin jafntefli þarf Ísland að vinna að minnsta kosti tveggja marka sigur. Vinni Argentína má sigur liðsins ekki vera stærri en sigur Íslands á Króatíu.

Mbl.is spurði Kára Árnason að því á blaðamannafundi í Kabardinka í morgun hvernig leik hann sæi fyrir sér á milli Argentínu og Nígeríu á þriðjudag.

„Það er erfitt að segja. Þetta eru tvö gríðarlega sterk sóknarlið. Argentína þarf nú að rétta úr kútnum og ég sé ekki fyrir mér að Argentínumenn fari af HM án þess að vinna einn leik. Við vonum svo sannarlega að þeir nái því, en ekki of stóran sigur. En Nígería er gríðarlega sterkt skyndisóknalið, með gríðarlegan hraða í framlínunni, og þetta gæti orðið hættulegt ef að Messi og félagar eru að halda boltanum mikið við þeirra teig. Þá eru Nígeríumenn tilbúnir að refsa þeim með skyndisóknum,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert