Óvænt tap Belga í síðasta leik fyrir HM

Mo Salah og Yannick Carrasco eigast við í dag.
Mo Salah og Yannick Carrasco eigast við í dag. AFP/Yasser Al-Zayyat

Egyptaland vann óvæntan 2:1-sigur á Belgíu í síðasta vináttuleik Evrópuþjóðarinnar fyrir HM í Katar. Leikið var á Jaber Al-Ahmad-vellinum í Kúveit.

Mostafa Mohamed kom Egyptalandi yfir á 33. mínútu og Mahmoud Trezeguet tvöfaldaði forskot Afríkuþjóðarinnar á 46. mínútu.

Loïs Openda minnkaði muninn á 76. mínútu en nær komst Belgía ekki. Mo Salah var fyrirliði Egypta og lék 88 mínútur, en Egyptaland verður ekki með á HM. 

Belgía er í F-riðli á HM, ásamt Króatíu, Kanada og Marokkó. Fyrsti leikur er gegn Kanada næstkomandi miðvikudag.

mbl.is