Stöngin út hjá Úrúgvæ

Luis Suárez í baráttu í vítateig Suður-Kóreu. Hann lék fyrstu …
Luis Suárez í baráttu í vítateig Suður-Kóreu. Hann lék fyrstu 64 mínúturnar í dag. AFP/Jewel Samad

Úrúgvæ og Suður-Kórea gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik H-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta sem fram fór í Al Rayyan í Katar í dag.

Úrúgvæjar voru nær sigri en boltinn small tvisvar í markstöngum Suður-Kóreumanna, eftir skalla Diego Godín í lok fyrri hálfleiks og eftir skot Federico Valverde undir lok leiksins.

Portúgal og Gana eru hin tvö liðin í H-riðli og leikur þeirra hefst klukkan 16.

Suður-Kórea var mikið meira með boltann fyrstu 15 mínúturnar, 67 prósent af tímanum, og fékk tvær hornspyrnur á þeim tíma en engin marktækifæri litu dagsins ljós.

Federico Valverde fékk fyrsta færið á 19. mínútu þegar hann skaut yfir mark Suður-Kóreu úr vítateignum.

Hwang Ui-jo og Son Heung-min vonsviknir eftir að Hwang skaut …
Hwang Ui-jo og Son Heung-min vonsviknir eftir að Hwang skaut yfir mark Úrúgvæ úr dauðafæri á 34. mínútu. AFP/Jewel Samad

Úrúgvæjar voru aftur hættulegir á 22. mínútu þegar Luis Suárez missti naumlega af boltanum á markteig eftir sendingu frá hægri.

Hwang Ui-jo fékk fyrsta færi Suður-Kóreu á 34. mínútu, og það var dauðafæri, því hann skaut yfir mark Úrúgvæja af markteig.

Diego Godín fyrirliði Úrúgvæ, sem leikur sinn 160. landsleik, var hársbreidd frá því að koma sínu liði yfir á 43. mínútu þegar hann átti hörkuskalla í stöng eftir hornspyrnu.

Son Heung-min, fyrirliði og aðalstjarna Suður-Kóreu, leikur með andlitsgrímu þar …
Son Heung-min, fyrirliði og aðalstjarna Suður-Kóreu, leikur með andlitsgrímu þar sem hann brákaðist í andliti fyrr í mánuðinum. Federico Valverde reynir hér að stöðva hann. AFP/Jewel Samad

Mikil hætta var vítateig Suður-Kóreu á 63. mínútu þegar Darwin Núnez komst að endamörkum alveg við markteiginn en Kim Seung-gyu markvörður gerði mjög vel í að komast fyrir sendingu hans.

Úrúgvæ skipti um fremsta mann á 64. mínútu þegar hinn 35 ára gamli Luis Suárez fór af velli og jafnaldri hans Edinson Cavani kom í hans stað.

Suður-Kórea gerði þrefalda skiptingu á 74. mínútu og rétt á eftir átti einn varamannanna, Cho Gue-sung, hörkuskot frá vítateig en rétt framhjá marki Úrúgvæja.

Darwin Núnez átti fast skot frá vítateig að marki Suður-Kóreu á 81. mínútu en boltinn fór rétt framhjá stönginni hægra megin.

Rodrigo Bentancur miðjumaður Úrúgvæ með boltann og Na Sang-ho miðjumaður …
Rodrigo Bentancur miðjumaður Úrúgvæ með boltann og Na Sang-ho miðjumaður Suður-Kóreu sækir að honum. AFP/Jung yeon-je

Federeco Valverde átti mikinn þrumufleyg að marki Suður-Kóreu á 90. mínútu og boltinn small í stönginni, í annað sinn í leiknum!

Í næstu sókn skaut Son Heung-min að marki Úrúgvæ frá vítateig og rétt framhjá stönginni hægra megin. Í framhaldi af því var  tilkynntur 7 mínútuna uppbótartími.

Úrúgvæjar hita upp á vellinum fyrir leikinn í dag.
Úrúgvæjar hita upp á vellinum fyrir leikinn í dag. AFP/Pablo Porciuncula

Lið Úrúgvæ:
Mark: Sergio Rochet.
Vörn: Martin Cácers, Diego Godín, José Giménez, Mathias Olivera (Matias Vina 79.)
Miðja: Federico Valverde, Matias Vecino (Nicolas de la Cruz 79.), Rodrigo Bentancur.
Sókn: Federico Pellistri (Guillermo Varela 88.), Luis Suárez (Edinson Cavani 64.), Darwin Núnez.

Lið Suður-Kóreu:
Mark: Kim Seung-gyu.
Vörn: Kim Moon-hwan, Kim Min-jae, Kim Jin-su.
Miðja: Jung Woo-young, Lee Jae-sung (Son Jun-ho 74.), Hwang In-beom.
Sókn: Na Sang-ho (Lee Kang-in 74.), Hwang Ui-jo (Cho Gue-sung 74.), Son Heung-min.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert