De Bruyne orðinn óvinsæll hjá Belgum

Kevin De Bruyne er sagður neikvæður og gagnrýninn á félaga …
Kevin De Bruyne er sagður neikvæður og gagnrýninn á félaga sína. AFP/Odd Andersen

Fyrrverandi landsliðsmaður Belgíu segir að Kevin De Bruyne, fyrirliði belgíska landsliðsins í knattspyrnu, sé orðinn óvinsæll í leikmannahópnum.

Eftir ósigurinn gegn Marokkó í gær, 2:0, á HM í Katar sagði Jan Vertonghen, varnarmaðurinn reyndi í liði Belga, að kannski væru hann og samherjar hans í vörninni orðnir of gamlir. Margir hafa túlkað þetta sem skot á De Bruyne sem sagði nýlega í viðtali við The Guardian að belgíska liðið væri orðið of gamalt og gæti því ekki unnið heimsmeistaratitilinn.

„Hann hefur kvartað mikið og verið mjög neikvæður. Síðan lenti hann í rifrildi við Toby Alderweireld sem sást vel í sjónvarpinu. Ef þið skoðið myndir frá leiknum gegn Marokkó þar sem Lukaku er að tala við hópinn, sést að De Bruyne er sá eini sem ekki heldur utan um næsta samherja. Hann er besti leikmaður liðsins en hinir eru orðnir þreyttir á honum. Og hann er orðinn svekktur sjálfur því þetta gengur ekkert hjá honum. Og það er ekki góðs viti," sagði Gilles De Bilde við Het Laaste Nieuws í Belgíu.

Belgar eru með þrjú stig eftir nauman 1:0-sigur á Kanada en eiga á hættu að komast ekki í sextán liða úrslitin, takist þeim ekki að vinna Króata í lokaumferð riðlakeppninnar.

mbl.is