Bandaríkin fá HM-sæti 2025 og 2027

Japanar eru í riðli með Íslandi á HM en þeir …
Japanar eru í riðli með Íslandi á HM en þeir fengu aukasætið í keppninni í ár þar sem þeir eru næstu gestgjafar á Ólympíuleilkum. AFP

Bandaríkjunum hefur verið tryggður keppnisréttur í lokakeppni tveggja heimsmeistaramóta karla og kvenna í handknattleik, árin 2025 og 2027, þrátt fyrir að landslið Bandaríkjanna hafi ekki komist þangað um árabil og karlaliðið hafi ekki einu sinni tekið þátt í undankeppninni fyrir heimsmeistaramótið sem nú stendur yfir.

Þetta er niðurstaðan eftir að stjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, ákvað að setja í reglur sínar hvernig þjóðum sé úthlutað lausu sæti í lokakeppni HM. Á síðustu þremur mótum í karlaflokki hefur einu liði sem ekki vann sér keppnisrétt á  viðkomandi móti verið úthlutað þessu lausa sæti, sem á ensku nefnist „wildcard“. Árið 2015 var það Þýskaland, árið 2017 var það Noregur og á yfirstandandi móti var það Japan sem fékk lausa sætið. 

Japanar fengu sætið í ár vegna þess að þeir eru gestgjafar á Ólympíuleikunum 2020 þar sem lið þeirra fær sjálfkrafa keppnisrétt, þannig að fordæmið er til staðar.

Ólympíuleikarnir árið 2028 verða haldnir í Los Angeles og þar fær lið Bandaríkjanna sjálfkrafa keppnisrétt, bæði í karla- og kvennaflokki. Þátttaka bandaríska karlaliðsins á HM hefur verið stopul, og þangað hefur liðið ekki komist frá árinu 2001. Bandaríkin hafa tapað öllum 25 leikjum sínum í lokakeppni HM, landið hefur átt lið í lokakeppninni fimm sinnum alls frá 1970, og ekkert lið var sent á Ameríkumótið 2018 þar sem þjóðir Norður- og Suður-Ameríku unnu sér keppnisrétt á HM 2019. Argentína, Brasilía og Síle fengu þau sæti.

Kvennalið Bandaríkjanna hefur ekki komist á HM frá árinu 1995 og varð í fimmta sæti á síðasta Ameríkumóti, árið 2017.

Per Bertelsen, formaður danska handknattleikssambandsins og stjórnarmaður IHF, staðfesti þessa niðurstöðu IHF við TV 2 í Danmörku.

„Það hefur fram til þessa líklega verið dálítið erfitt fyrir almenning að átta sig á því eftir hverju hefur verið farið þegar þessum lausu sætum er úthlutað. En nú er það gert á mjög skýran hátt og ég er ánægður með það,“ sagði Bertelsen.

Hvað ef gestgjafinn þarf ekki sætið?

Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV 2 og þjálfari Fram og ÍR á árum áður, er ánægður með breytinguna en bendir á galla á henni.

„Ég skil vel ástæðurnar fyrir þessu og tel líka að fyrst á annað borð þurfi að ráðstafa lausu sæti, sé góð ástæða til þess að verðandi gestgjafi á Ólympíuleikum fái sætið, þar sem handboltinn vill vera íþrótt á alheimsvísu og vera á Ólympíuleikum.

En hvað gerist ef gestgjafi Ólympíuleikanna hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á HM og þarf því ekki lausa sætið? Þá þurfa að vera skýrar línur um hver eigi að fá sætið,“ segir Nyegaard.

Frakkar halda Ólympíuleikana 2024 í París en þar sem Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar bæði í karla- og kvennaflokki þurfa þeir líklega ekki á svona úthlutun að halda. Ekki liggur fyrir hvað eigi að gera í slíkum tilfellum og því ekki á hreinu hverjir fá lausa sætið á HM karla og kvenna árin 2021 og 2023.

IHF tekur fram að Bandaríkin fái lausa sætið bæði 2025 og 2027, svo framarlega sem landslið þeirra hafi náð „ákveðnu getustigi“. Það verður því væntanlega í höndum stjórnar IHF að ákveða hvort bandarísku liðin hafi náð því getustigi þegar þar að kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert