Aron og félagar unnu á lokasprettinum

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein.
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein. AFP

Landslið Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar, sýndi mikla seiglu þegar það lagði japanska landsliðið undir stjórn Dags Sigurðssonar, 23:22, í leik neðstu liðanna tveggja í B-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Ólympíuhöllinni í München, en leiknum var að ljúka. Bareinar skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins.

Barein leikur þar með um sæti 17 til 20 á mótinu en Japan rekur lestina og verður í keppninni um sæti 21 til 24. 

Þetta er besti árangur Barein frá upphafi en í þau tvö skipti sem liðið hefur áður komist á HM, árin 2011 og 2017, endaði liðið í 23. og næstneðsta sæti.

Bareinar voru yfirleitt á undan að skora í fyrri hálfleik en hvorugu liði tókst að ná frumkvæðinu. Sóknarleikurinn var mistækur og fjöldi marktækifæra fór í súginn. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 10:10.

Japanar byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti og náðu fljótlega frumkvæðinu. Rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik náði japanska liðið fimm marka forskoti, 19:14. Bareinbúar bitu frá sér þótt ekki blési byrlega hjá þeim. Þeir skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í tvö mörk, 19:17, þegar 12 mínútur voru til leiksloka.

Bareinar minnkuðu muninn í eitt mark úr vítakasti tveimur mínútum fyrir leikslok, 22:21, og unnu síðan boltann af japanska liðinu hálfri mínútu síðar. Barienar jöfnuðu metin, 22:22, þegar 45 sekúndur voru eftir. 

Japanska liðið brunaði upp í sókn og einn leikmanna þess átti skot í stöng þegar 15 sekúndur voru eftir. Aron Kristjánsson tók umsvifalaust leikhlé og lagði upp síðustu sóknina fyrir sína menn sem lauk með að Husain Alsayyad skoraði sigurmarkið, 23:22, þegar tvær sekúndur voru eftir af leiktímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert