Í fótspor feðranna

Nikola Portner ver frá Gísla Þorgeiri í leiknum í gær. …
Nikola Portner ver frá Gísla Þorgeiri í leiknum í gær. Gísla tókst tvívegis að skora hjá Portner í leiknum. AFP

Nikola Portner, markvörður Sviss, reyndist Íslendingum erfiður á HM karla í handknattleik í Egyptalandi í gær og varði hvað eftir annað frá Íslendingum úr góðum færum. 

Á meðfylgjandi mynd ver hann frá leikstjórnandanum Gísla Þorgeiri Kristjánssyni af línunni. Feður þeirra Nikola og Gísla mættust nokkrum sinnum á handboltavellinum.

Faðir Nikola var leikstjórnandinn klóki Zlatko Portner. Hann kom frá sameinaðri Júgóslavíu en lést í fyrra. Portner lauk leikmannaferlinum í Sviss og starfaði þar lengi sem þjálfari sem skýrir hvers vegna sonurinn leikur fyrir Sviss. 

Zlatko Portner var í einu besta félagsliði sögunnar, RK Metaloplastika frá Júgóslavíu, á níunda áratugnum. Kom hann með liðinu til landsins tímabilið 1984-1985 og mætti FH þegar FH náði þeim frábæra árangri að komast í undanúrslit í Evrópukeppni meistaraliða. Í lykilhlutverki hjá FH var Kristján Arason, faðir Gísla. Metaloplastika sló FH út og sigraði í keppninni tvö ár í röð en liðið var frá borginni Sabac í vesturhluta Serbíu. 

Ég þori ekki alveg að fullyrða um hvort Portner og Kristján hafi mæst í lokakeppni HM eins og Nikola og Gísli gerðu í gær. Portner var í liði Júgóslavíu sem varð heimsmeistari árið 1986 en þá mættust ekki Ísland og Júgóslavía. Á þeim árum var lokakeppni HM á fjögurra ára fresti. Portner var í hópnum hjá Júgóslavíu á HM í Tékkóslóvakíu 1990 en ég er ekki viss um að hann hafi komið við sögu í leiknum gegn Íslandi þegar Júgóslavía sigraði Ísland 27:20 í riðlakeppninni í Zlin.

Kristján spilaði þann leik og það gerði raunar einnig Guðmundur Þ. Guðmundsson núverandi landsliðsþjálfari enda fastamaður í landsliðinu á þeim tíma. Við þetta má bæta að núverandi markmannsþjálfari Íslands, Tomas Svensson, varð heimsmeistari með Svíum í Tékkóslóvakíu 1990. 

Portner mætti alla vega Kristjáni (og Guðmundi einnig) á stórmóti eða á ÓL í Suður-Kóreu árið 1988. Kristján skoraði þá eftirminnilegt mark beint úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn í fyrri hálfleik. Ísland og Júgóslavía gerðu þá jafntefli rétt eins og þau gerðu á ÓL 1984. 

Þegar horft er yfir sviðið á stórmótum í handknattleiknum eins og nú á HM í Egyptalandi þá er alveg óhætt að segja að íþróttin liggi í ættum. Svo einhver dæmi séu tekin þá eru þeir Alex og Daniel Dujshebaev í spænska liðinu synir Talant Dujshebaev sem var einn snjallasti leikmaður heims og lék á stórmótum með Samveldi sjálfstæðra ríkja, Rússlandi og Spáni.

Þá er Melvyn Richardson hjá Frökkum sonur Jackson Richardson sem valinn var leikmaður mótsins þegar HM var haldið á Íslandi árið 1995 og lykilmaður í vörn Frakka sem urðu heimsmeistarar. Upptalningu sem þessari væri sjálfsagt hægt að halda áfram. 

Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni í gær.
Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert