Sigurmarkið fjórum sekúndum fyrir leikslok

Jordan Steger með pökkinn í kvöld. Andrej Mrazik sækir að …
Jordan Steger með pökkinn í kvöld. Andrej Mrazik sækir að honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

SA er komið í 2:0 í úrslitaeinvíginu gegn Esju um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí eftir 5:4-sigur í Skautahöll Reykjavíkur í framlengdum leik kvöld. SA getur orðið Íslandsmeistari með sigri í þriðja leiknum á Akureyri á laugardaginn kemur. 

1. leikhluti var skemmtilegur frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á að sækja og búa sér tíl fín tækifæri. Fyrsta markið kom á 11. mínútu er Hjalti Jóhannsson kláraði vel eftir undirbúning Arons Knútssonar. Á 17 mínútu fékk Andrej Mrazik í liði Esju brottvísun fyrir krækju og aðeins nokkrum sekúndum síðar var spilandi þjálfari SA, Jussi Sipponen búinn að jafna með langskoti.

Þrátt fyrir fín tækifæri beggja liða voru ekki fleiri mörk skoruð í leikhlutanum og staðan 1:1 fyrir 2. leikhluta. Það var boðið upp á svipaðan leik í 2. leikhluta, liðin skiptust á að sækja í góðum íshokkíleik, og var það ótrúlegt að fyrsta mark leikhlutans kom ekki fyrr en á 36. mínútu en þá skoraði Andrej Mrazik úr þröngu færi.

Gestirnir voru svo sannarlega ekki á þeim buxunum að gefast upp því þremur mínútum síðar skoraði Jón Gíslason gott mark og jafnaði í 2:2 og eins og í 1. leikhluta, skoruðu liðin eitt mark hvort og stefndi í æsispennandi þriðja og síðasta leikhluta.

Jussi Sipponen skoraði sitt annað mark á 45. mínútu, en það var nánast alveg eins og fyrra markið hans. Skot af löngu færi sem rataði inn. Esjumenn voru manni færri á meðan þar sem Jón Andri Óskarsson í liði Esju var utan vallar vegna brottvísunar. Tveimur mínútum síðar skoraði Sipponen þriðja markið sitt og enn með langskoti á meðan SA var manni fleiri. 

Eftir það róaðist leikurinn töluvert og lítið markvert gerðist næstu mínútur. Skömmu fyrir leikslok fékk Sigurður Sigurðsson brottvísun og Esjumenn nýttu sér það því Mrazik skoraði sitt annað mark, tveimur mínútum fyrir leikslok og gaf Esju von. Egill Þormóðsson jafnaði örskömmu síðar og var staðan því 4:4 þegar rúm mínúta var eftir. Ekkert meira var skorað í leikhlutanum og því var framlengt. 

Framlengingin var jöfn og spennandi, en Orri Blöndal skoraði sigurmarkið fjórum sekúndum fyrir leikslok og þar við sat. 

Esja 4:5 SA opna loka
65. mín. Orri Blöndal (SA) Mark 4:5 - Orri skorar FJÓRUM sekúndum fyrir leikslok og SA er komið í 2:0 í einvíginu! Þvílík dramatík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert