Var og er enn tvísýnt með Jón Arnór

Jón Arnór Stefánsson á landsliðsæfingu í dag.
Jón Arnór Stefánsson á landsliðsæfingu í dag. mbl.is/Ófeigur

„Ég fór aftur í myndatöku fyrir tveimur dögum síðan og staðan er betri,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á æfingu landsliðsins í dag þegar lokahópurinn var kynntur fyrir Evrópumótið sem hefst í Helsinki í vikunni.

Jón Arnór hefur ekkert getað tekið þátt í undirbúningsleikjum Íslands, en hann hefur verið að glíma við erfið nárameiðsli.

„Ég hef verið meiddur í öllum undirbúningnum og þurft að hvíla. Ég var með rifu í náranum sem þurfti að gróa, annars hefði ég getað gleymt þessu móti. Það er á einhverjum þremur stöðum í náranum sem ég er tæpur, en þessi rifa er alla vega gróin og tognunin er farin,“ sagði Jón Arnór. Hann var engu að síður valinn í lokahópinn, en var það tvísýnt?

„Já, og er enn þá. Maður veit ekkert hvort það gerist eitthvað þegar ég fer aftur af stað, þetta er svo ofboðslega viðkvæmt svæði. En ég hef getað tekið miklu meira á því síðustu tvo daga, en það er allt eftir eftirliti. Ég geri eins mikið og ég má og hef fengið grænt ljós á að geta tekið fullan þátt í næstu æfingum fyrir fyrsta leik. Við spilum þetta bara eftir því hvernig mér líður, og svo lengi sem ég hjálpa liðinu þá er það gott. Annars sit ég bara á rassgatinu og geri ekki neitt,“ sagði Jón Arnór.

Yfirspilum engar þjóðir á hæfileikunum

Ísland er á leið á sitt annað lokamót eftir að hafa farið í fyrsta sinn á EM í Berlín fyrir tveimur árum. Er hægt að segja að íslenska liðið sé reynslunni ríkara?

„Alveg eins. Við vorum alveg reynslulausir í Berlín og stóðum okkur alveg frábærlega. Ég vona bara að það verði svipað uppi á teningnum núna. Ísland hefur aldrei náð neinum árangri án þess að vera jarðbundið og ég held að við verðum að hugsa um það eins og við séum aftur að fara út í algjöra óvissu. Við munum leggja okkur alla fram og það skiptir öllu máli,“ sagði Jón Arnór, en við hverju má búast frá liðinu?

Jón Arnór Stefánsson og Tryggvi Snær Hlinason, sem Jón segir …
Jón Arnór Stefánsson og Tryggvi Snær Hlinason, sem Jón segir að breyti miklu fyrir íslenska liðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum ekkert að fara að yfirspila einhverjar þjóðir á hæfileikunum, við vitum það og þurfum bara að finna aðrar leiðir til þess að hafa betur í vörn og sókn. Væntingarnar eru þær að leggja okkur alla fram í verkefnið, við getum hent okkur á hvern bolta og hvatt hver annan áfram. Það gefur okkur alla vega möguleika, og ef það er ekki til staðar þá getum við gleymt því að vinna leik,“ sagði Jón Arnór.

„Höfum alltaf verið svo litlir og asnalegir“

Eitt það sem er öðruvísi við lokakeppni EM nú og fyrir tveimur árum er að íslenska liðið hefur úr fleiri kostum að velja í leik sínum. Tilkoma hins hávaxna Tryggva Snæs Hlinasonar breytir landslagi liðsins mikið.

„Við þurfum svolítið að aðlaga leik okkar að honum. Við höfum alltaf verið svo litlir og asnalegir eitthvað, en um leið og hann kemur inn á breytist það. Allt í einu getum við hent boltanum upp í loftið og hann nær í hann, svo við getum breytt okkar leik með hann og þurfum að aðlagast því,“ sagði Jón Arnór og er ánægður með fleiri unga leikmenn í liðinu.

„Það eru líka ungir strákar að koma betur inn í þetta eins og Elvar [Már Friðriksson] og Kristófer [Acox]. Við söknum auðvitað Helga Magg [Magnússonar] og Kobba [Jakobs Sigurðarsonar], en það eru þessi kynslóðaskipti í gangi þó að við höldum enn sama kjarna,“ sagði Jón Arnór Stefánsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert