Ólíkar viðureignir í undanúrslitum bikarsins

Fyrirliðar liðanna fjögurra sem leika í undanúrslitum Maltbikarsins í dag. …
Fyrirliðar liðanna fjögurra sem leika í undanúrslitum Maltbikarsins í dag. Frá vinstri: Brynjar Þór Björnsson, Halldór Halldórsson, Emil Barja og Sigtryggur Arnar Björnsson. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Það er stutt á milli hátíða hjá körfuboltafólki þessa dagana. Jólahátíðinni var að ljúka og þá tekur bikarhátíðin bara við og stendur fram á sunnudag í Laugardalshöllinni, en bikarúrslit yngri flokka fara einnig fram þessa helgi. Karlarnir ríða á vaðið í kvöld og konurnar taka síðan við á morgun. Ég skora á alla íþróttaunnendur og bara alla sem hafa gaman af að njóta lífsins að skella sér á þessa hátíð því hún mun klárlega gleðja alla.

Fyrri leikurinn í dag er á milli bikarmeistara KR og 1. deildar liðs Breiðabliks. Fyrirfram er kannski ekki búist við spennandi leik þar sem mikill getumunur á að vera á milli þessara tveggja liða. Blikar eru sem stendur í 2. sæti á eftir Skallagrími í 1. deildinni og eru í mikilli baráttu um að komast upp á meðal þeirra bestu. Þeir tefla fram sterkum bandarískum leikmanni að nafni Jeremy Smith sem er að skora 30 stig í leik fyrir þá og taka rétt rúm 10 fráköst. Þá er hann einnig stoðsendingahæstur með rétt tæpar 5 stoðsendingar í leik. Virkilega fjölhæfur leikmaður sem verður að eiga stórleik ef Blikar ætla að stríða KR-ingum.

Öflugar 3ja stiga skyttur Blika

Blikar eru síðan með tvær öflugar 3ja stiga skyttur í þeim Árna Elmari Hrafnssyni og Ragnari Jósef Ragnarssyni. Þeir Sveinbjörn Jóhannesson og Snorri Vignisson eru síðan sterkir skrokkar inni í teig og verður fróðlegt að sjá þá kljást við stóru mennina hjá KR þar sem þeir eru 19 og 20 ára alveg eins og Árni og Ragnar. Þetta eru því ungir strákar að kljást við fullorðna karlmenn.

KR-liðið þekkja allir og er hinn sigursæli þjálfari liðsins, Finnur Freyr Stefánsson, að endurheimta alla sína menn þessa dagana. Eftir brösótta byrjun í haust er liðið að nálgast sinn styrk og búið að vinna sex í röð. KR mætti 1. deildar liði Vals í fyrra í undanúrslitum og þurfti að hafa verulega fyrir þeim sigri. 1. deildin er ekki eins sterk og á síðasta tímabili og er ég ekki að sjá KR lenda í miklum vandræðum með Blika en vona að Kópavogsbúar nái að stríða þeim eitthvað.

Tvö lið sem ætla sér stóra hluti

Seinni undanúrslitaleikurinn verður alvöru kappleikur. Þar mætast tvö gríðarlega sterk lið. Haukar eru efstir í deildinni en Tindastóll er aðeins einum leik frá þeim. Bæði lið ætla sér stóra hluti í vetur og hafa gæðin til að vinna titil og þess vegna titla.

Stólarnir unnu deildarleik þessara liða í byrjun nóvember þegar Kári Jónsson var nýkominn til Hauka frá Bandaríkjunum en það er ekkert að marka þau úrslit núna. Það er ómögulegt að sjá fyrir sigurvegara í þessum leik og mun dagsformið skipta miklu máli eins og svo oft í bikarnum. Bæði lið eru pottþétt búin að kortleggja hitt og vita upp á hár hvað þarf að gera. Svo kemur í ljós hvoru liðinu tekst betur upp að framkvæma það sem lagt er upp með. Sá þjálfari sem nær að stilla spennustigið hjá sínum leikmönnum betur mun ganga sigurreifur frá þessum leik en bæði lið eru með öfluga reynslubolta í brúnni sem kunna sitt fag.

Ég er sjálfur búinn að búa mig undir nokkrar framlengingar í þessum leik og sé fyrir mér leik sem verður lengi talað um sem einn rosalegasta leik í Höllinni síðari ára. Sama hvað ég rýni í þessa viðureign þá sé ég ekki hvort liðið mun hafa betur. Ég treysti mér ekki einu sinni til að koma með „educated“ gisk.

Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert