Tindastóll í úrslit í annað skipti

Tindastóll er kominn í bikarúrslit í körfubolta karla í annað skipti í sögunni og í fyrsta skipti síðan árið 2012 eftir 85:75-sigur á Haukum í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í kvöld. 

Tindastóll fór betur af stað og skotnýting Hauka var ekki upp á marga fiska. Þegar 1. leikhluti var rúmlega hálfnaður var staðan 15:8 og eftir 1. leikhluta 21:13. Haukar reyndu mikið af þriggja stiga skotum með misjöfnum árangri. Hinum megin gekk sóknarleikur Tindastóls, sem Sigtryggur Arnar Björnsson stýrði fagmannlega, mun betur.

Svipað var uppi á teningnum í 2. leikhluta og náðu Tindastólsmenn mest tíu stiga forskoti í stöðunni 35:25. Haukar löguðu stöðuna aðeins fyrir leikhlé og staðan í hálfleik var 37:31. Sigtryggur Arnar skoraði 15 stig og tók átta fráköst í hálfleiknum fyrir Tindastól og Pétur Rúnar Birgisson gaf átta stoðsendingar. Kári Jónsson var besti maður Hauka í fyrri hálfleik og skoraði tíu stig.

Haukar minnkuðu muninn í 40:37 snemma í síðari hálfleik en þá tók Sigtryggur leikinn í sínar hendur og hann var stærsta ástæða þess að Tindastóll skoraði níu stig í röð og náði tólf stiga forskoti, 56:44. Haukar löguðu stöðuna í 58:49 og þannig var hún þegar síðasti leikhlutinn fór af stað.

Þegar 4. leikhluti var hálfnaður minnkuðu Haukar muninn í 66:62. Þá komu hins vegar sjö stig í röð hjá Tindastóli og var staðan 73:62 þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka. Þrátt fyrir ágæta tilraun hjá Haukum tókst þeim ekki að jafna leikinn eftir það og Tindastóll fór með sigur af hólmi. Sigtryggur Arnar skoraði 35 stig og tók auk þess 11 fráköst. 

Gangur leiksins: 5:6, 8:13, 11:15, 13:21, 19:23, 25:28, 25:35, 31:37, 39:40, 42:46, 42:51, 49:58, 59:66, 62:70, 68:78, 75:85.

Haukar: Paul Anthony Jones III 20/5 fráköst, Kári Jónsson 15/6 fráköst/6 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 8/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 8/12 fráköst, Emil Barja 7/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Ívarsson 6, Kristján Leifur Sverrisson 6, Haukur Óskarsson 5.

Fráköst: 27 í vörn, 8 í sókn.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 35/11 fráköst, Brandon Garrett 17/4 fráköst, Antonio Hester 9/6 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 7/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 6, Axel Kárason 6, Hannes Ingi Másson 3/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 2/8 fráköst/8 stoðsendingar.

Fráköst: 33 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Haukar 73:83 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert