Sumarfríið er farið út um gluggann

Ingi Þór Steinþórsson við undirskriftina í dag ásamt Jóni Arnóri …
Ingi Þór Steinþórsson við undirskriftina í dag ásamt Jóni Arnóri Stefánssyni, Kristófer Acox og Böðvari Guðjónssyni, formanni körfuknattleiksdeildar KR. mbl.is/Arnþór

„Þetta verkefni leggst mjög vel í mig og ég er mjög spenntur að takast á við nýja áskorun,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, nýráðinn þjálfari körfuknattleiksdeildar KR, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum Alvogen á Íslandi í dag.

„Það var mjög erfitt að kveðja Stykkishólm og Snæfell. Ég er mjög þakklátur fyrir það tækifæri sem ég fékk þar. Þeir sýndu mér mikið traust á sínum tíma og það hefur gengið mjög vel hjá mér þar og það var hrikalega erfitt að kveðja. Fyrir viku síðan var ég að leita að leikmönnum fyrir Snæfell en þeir sýndu mér mikinn skilning. Ég stend í þakkarskuld við bæði KR og Snæfell hvernig staðið var að hlutunum í aðdraganda ráðningu minnar. Það skildu allir í góðu og ég á nú von á því að ég muni aðstoða þá með að finna minn eftirmann og setja hann svo inn í það sem ég hef verið að gera hjá félaginu, undanfarin ár. Að sama skapi þarf ég að einbeita mér að KR núna þannig að ég geri fastlega ráð fyrir því að sumarfríið sé farið út um gluggann."

Kristófer Acox og Jón Arnór Stefánsson hafa verið lykilmenn í …
Kristófer Acox og Jón Arnór Stefánsson hafa verið lykilmenn í KR, undanfarin tvö ár. mbl.is/Árni Sæberg

Þakklátur Jóni og Kristófer

Ingi tekur við KR af Finni Frey Stefánssyni sem gerði liðið að Íslandsmeisturum fimm ár í röð en hann hætti nokkuð óvænt með liðið í síðustu viku.

„Það eru ákveðin tímamót hjá KR. Að vinna fimm titla í röð er held ég eitthvað sem verður ekki leikið eftir aftur. Við ætlum okkur að setja saman gott lið sem gengur í takt. Ég mun leggja áherslu á heildina og horfa til framtíðar. Þetta snýst um að finna hinn gullna meðalveg, það þýðir ekki að horfa bara í aðra áttina. Markmiðið er að klúbburinn haldi áfram að vaxa og dafna, það eru margir iðkendur í félaginu og við þurfum að stuðla að því að það fái allir tækifæri, ef þeir halda áfram að standa sig vel.“

Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox skrifuðu undir nýja samninga við félagið í hádeginu og er Ingi þakklátur þeim að halda tryggð við félagið.

„Það er frábært fyrir mig að þeir Jón og Kristófer hafi skrifað undir nýja samning að við félagið. Þetta sýnir einfaldlega hvaða hug þeir bera þeirra breytinga sem eru í gangi hjá KR.  Það hefði alveg getað farið svo að ég hefði staðið uppi einn með algjörlega nýtt lið í höndunum en ég er mjög þakklátur þeim og stoltur af því að þeir hafi ákveðið að taka slaginn með mér. Ég er mjög spenntur að setja saman nýtt lið hjá KR, hvernig sem það endar.“

Ingi Þór hefur unnið magnað starf með kvennalið Snæfells og …
Ingi Þór hefur unnið magnað starf með kvennalið Snæfells og segir að það hafi verið erfitt að kveðja stelpurnar. mbl.is/Eggert

Stelpurnar sýndu þessu skilning

Eins og áður sagði hefur KR unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð en hann telur að pressan á liðinu verði öðruvísi í ár en hún hefur verið áður.

„Það er öðruvísi pressa í Vesturbænum núna. Auðvitað eru einhverjir sem vilja vinna sjötta Íslandsmeistaratitilinn í röð. Ég er metnaðarfullur þjálfari sem vill vinna titla og ég vil að allir leikmenn liðsins leggi sig fram og geri sitt allra besta í hverjum einasta leik sem við spilum. Deildin verður mun sterkari í ár með breyttu regluverki og liðin geta styrkt sig meira en þau hafa verið að gera. Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn verður því afar hörð og ef KR ætlar sér að verða Íslandsmeistari þurfum við að vera mjög samstilltir.“

Ingi Þór hefur unnið magnað starf með kvennalið Snæfells í Stykkishólmi frá árinu 2009 og viðurkennir að það hafi verið mjög erfitt að kveðja stelpurnar.

„Það var virkilega erfitt að kveðja stelpurnar en þær sýndu þessu líka skilning, líkt og allir í Hólminum. Mér þykir mjög vænt um liðið og vinnan sem Baldur, Gulli Smára og stjórnin hefur lagt á sig fyrir félagið er algjörlega ómetanleg. Það var mjög erfitt að segja bless en að sama skapi þá er áskorunin mikil og ég tel að þetta sé rétt skref fyrir mig á þessum tímapunkti á mínum þjálfaraferli,“ sagði Ingi Þór að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert