Slagari Bjartmars lifir í Garðabænum

Leikmenn og stuðningsmenn Stjörnunnar voru laufléttir í leikslok.
Leikmenn og stuðningsmenn Stjörnunnar voru laufléttir í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Týnda kynslóðin, gamall slagari Bjartmars Guðlaugssonar, lifir góðu lífi í Garðabænum. Lagið var sett á fóninn í Laugardalshöll í dag nánast um leið og Stjarnan hafði tryggt sér sigur í bikarúrslitaleiknum gegn Njarðvík.

Leikmenn Stjörnunnar dilluðu sér í takt við lagið á miðju gólfi Laugardalshallarinnar þegar sigurinn var í höfn og var greinilega einhvers konar óskalag frá Stjörnunni tækist liðinu að vinna. 

Mbl.is forvitnaðist um málið enda man blaðamaður ekki til þess að lagið hafi verið leikið í Ásgarði á heimavelli Stjörnunnar. 

Var blaðamanni tjáð að lagið hefði oft verið spilað í búningsklefanum hjá karlaliði Stjörnunnar í körfuknattleik og með tímanum hefðu leikmenn tekið ástfóstri við lagið. 

Ólíklegt verður þó að teljast að Hlynur Bæringsson og samherjar hans í Stjörnunni hafi skilað inn vottorði í leikfimi miðað við frammistöðuna á vellinum. 

Hvort Bjartmar hafi verið pantaður til þess að skemmta Garðbæingum í bikarfögnuði í kvöld og í nótt fylgdi ekki sögunni. 

Lagið Týnda kynslóðin kom út á plötunni Í fylgd með fullorðnum árið 1987 og naut gífurlegra vinsælda á sínum tíma. 

Bjartmar Guðlaugsson.
Bjartmar Guðlaugsson. K100
mbl.is