„Ætlum að setja kassann út“

Jóhann Þór Ólafsson
Jóhann Þór Ólafsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, segir enga pressu vera á Grindvíkingum sem heimsækja Garðbæinga í kvöld þegar úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfuknattleik hefst. Stjarnan varð deildameistari og auk þess bikarmeistari en Grindavík hafnaði í 8. sæti. 

„Stemningin hjá okkur er bara mjög góð. Nú byrjar nýtt mót en svo sem ekki til mikils ætlast af okkur. Við ætlum bara að njóta þess að spila og setja kassann út. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem hafa fylgst með mótinu í allan vetur búist við því að Stjarnan fari áfram. Lið Stjörnunnar lítur best út af þessum átta liðum að mínu viti. Þeim tókst að setja saman mjög gott lið sem mistókst hjá okkur. Ég skil alveg þá umræðu að fólk búist við því að Stjarnan fari áfram,“ sagði Jóhann þegar mbl.is ræddi við hann. 

Jóhann tekur þó fram að styrkleikamunurinn á liðum í deildinni sé ekki mikill. „Munurinn er töluvert minni en verið hefur undanfarin ár með tilkomu nýrra reglna um leikmannamál. Það eru sex eða sjö lið sem ætla sér að vinna titilinn og við munum þá sjá tvö til þrjú lið sem verða verulega ósátt við að komast ekki lengra en í 8-liða úrslit. Það er klárlega nýtt landslag í körfuboltanum,“ sagði Jóhann og segir alla sína leikmenn vera mjög ferska og enginn á sjúkralistanum. 

Fyrsti leikur Stjörnunnar og Grindavíkur er á dagskrá í Garðabæ í kvöld klukkan 19:15. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert