Grindavík semur við Afríkumeistara

Jamal Olasewere
Jamal Olasewere Ljósmynd/Grindavík

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur samið við Nígeríumanninn Jamal Olasewere. Hann lék síðast með Remer í ítölsku B-deildinni.

Olasewere er fæddur í Bandaríkjunum en foreldrar hans eru frá Nígeríu. Hann hefur einnig leikið í Belgíu og Ísrael.  

Olasewere er 201 sentímetri og 102 kíló. Hann er miðherji og sterkur undir körfunni. Leikmaðurinn lék með LIU Brooklyn háskólanum frá 2009-2013. Landsliðsmennirnir Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson léku með sama háskólaliði. 

Hann lék sex leiki með Remer á síðustu leiktíð og skoraði 14 stig að meðaltali og tók tæp 4 fráköst. Olasewere hefur leikið með nígerska landsliðinu frá 2013 og varð hann Afríkumeistari með liðinu í Túnis árið 2015. 

mbl.is