Frakkar náðu bronsinu í annað skipti

Frakkinn Vincent Poirier treður boltanum í körfu Ástrala í leiknum ...
Frakkinn Vincent Poirier treður boltanum í körfu Ástrala í leiknum í dag. AFP

Frakkar hrepptu í dag bronsverðlaunin á sínu öðru heimsmeistaramóti karla í körfuknattleik í röð í dag þegar þeir sigruðu Ástrala, 67:59, í leiknum um þriðja sætið í Peking í Kína.

Frakkar jöfnuðu þar með sinn besta árangur á HM en á síðasta móti árið 2014 varð þriðja sætið líka þeirra hlutskipti og þá í fyrsta skipti. Ástralar náðu sínum besta árangri á heimsmeistaramótinu frá upphafi en þeir höfðu áður náð lengst í átta liða úrslit mótsins.

Ástralar voru yfir framan af leiknum og staðan í hálfleik var 30:21 þeim í hag. Eftir jafnræði langt frameftir fjórða leikhluta sigu Frakkar fram úr á lokamínútunum.

Nando De Colo skoraði 19 stig fyrir Frakka og Evan Fournier 16 en hjá Áströlum var Joe Ingles með 17 stig og Patty Mills með 15.

Úrslitaleikur Spánverja og Argentínumanna um heimsmeistaratitilinn hefst í Peking klukkan 12 að íslenkum tíma.

mbl.is