Tindastóll svaraði fyrir sig

Hannes Ingi Másson í baráttunni við Evaldas Zabas í Ljónagryfjunni …
Hannes Ingi Másson í baráttunni við Evaldas Zabas í Ljónagryfjunni í gær. mbl.is/Skúli B. Sigurðs

Njarðvíkingar fengu Tindastól í heimsókn í Njarðtaks-Gryfjuna í 2. umferð Dominosdeildar karla í gærkvöldi. Njarðvíkingar mættu brattir til leiks eftir sigur í fyrstu umferð en það voru Tindastólsmenn sem voru ívið sterkari mestallt kvöldið og lönduðu nokkuð verðskulduðum sigri 83:75 eftir að Njarðvíkingar höfðu leitt með tveimur stigum í hálfleik.

Njarðvíkingar komu grimmir til leiks og skoruðu fyrstu 7 stig leiksins. Eftir það hófst ákefð og pressa frá gestunum og skoruðu þeir næstu 10 stig leiksins. Eftir að hafa tapað illa í fyrstu umferð gegn Keflavík sýndu Tindastólsmenn gríðarlegan karakter í þessum leik. Öskraðir áfram frá fyrstu mínútu af þjálfara þeirra, Baldri Ragnarssyni, pressuðu þeir leikmenn Njarðvíkinga hátt á vellinum allt frá fyrstu mínútu. Þrátt fyrir að Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, vildi meina að þessu hefðu þeir grænklæddu búist við virtist þessi pressa koma Njarðvíkingum í opna skjöldu og leikmenn voru ragir og köstuðu boltanum í sífellu út af eða í hendurnar á gestunum.

Vendipunkturinn í leiknum var svo þriðji leikhluti, sem fyrr segir, þegar Tindastólsmenn tóku öll völd og spiluðu við hvurn sinn fingur. Gerald Simmons, sem minnir óneitanlega á Kyrie Irving, leikmann Brooklyn Nets, tók til að keyra að körfu Njarðvíkinga án þess að liðið kæmi nokkrum vörnum við. Varnarleikur Njarðvíkinga, sem áður hefur verið til vandræða, lét sig vanta og sóknarleikurinn var í besta falli tilviljanakenndur hinum megin á vellinum.

Umfjöllun um leik Njarðvíkur og Tindastóls má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert