Þekktur þjálfari og fjölskylda fórust í slysinu með Kobe Bryant

Gríðarlegur mannfjöldi safnaðist saman við Staple Center, heimavöll Los Angeles …
Gríðarlegur mannfjöldi safnaðist saman við Staple Center, heimavöll Los Angeles Lakers, vegna slyssins í gærkvöld. AFP

Það voru ekki aðeins Kobe Bryant og Gianna dóttir hans sem létust í flugslysinu hörmulega í Calabasas í útjaðri Los Angeles í gær. Alls voru níu manns í þyrlunni, flugmaður og átta farþegar, og þar á meðal var þekktur hafnaboltaþjálfari ásamt eiginkonu sinni og dóttur.

John Altobelli var sigursæll þjálfari hafnaboltaliðs Orange Coast menntaskólans, 56 ára gamall, og með í för voru eiginkona hans, Keri, og þrettán ára gömul dóttir þeirra, Alyssa, jafnaldra Giönnu Bryant. Altobelli var einn af aðeins fimm þjálfurum í sögunni sem hafa unnið fjóra eða fleiri meistaratitla í menntaskólahafnaboltanum í Kaliforníu.

Stúlkurnar voru á leiðinni til að spila körfubolta á móti í Mamba Sports Academy í Newbury Park þar sem Kobe Bryant, John og Keri Altobelli ætluðu að horfa á þær. Mótinu var aflýst vegna slyssins.

mbl.is