Skoruðu 88 stig í fyrri hálfleiknum

Devin Booker var í aðalhlutverki hjá Phoenix Suns í óvæntum …
Devin Booker var í aðalhlutverki hjá Phoenix Suns í óvæntum útisigri á Dallas og hér brýtur Justin Jackson hjá Dallas á honum. AFP

Milwaukee Bucks og Washington Wizards fóru nálægt því að skora þrjú hundruð stig samanlagt og þeir Khris Middleton og Bradley Beal fóru á kostum í ótrúlegum leik liðanna í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Milwaukee, sem er efst allra liða í NBA og vann sinn 41. sigur í 47 leikjum í vetur, þann níunda í röð, skoraði hvorki fleiri né færri en 88 stig í fyrri hálfleik, gegn 63. Washington skoraði 41 stig í þriðja leikhluta og minnkaði þá muninn í 117:104 en lokatölur urðu 151:131.

Khris Middleton setti persónulegt met með því að skora 51 stig fyrir Milwaukee og hann tók 10 fráköst og Bradley Beal skoraði 47 stig fyrir Washington.

Phoenix Suns skoraði 48 stig í þriðja leikhluta þegar liðið vann óvæntan stórsigur á Dallas Mavericks á útivelli, 133:104. Devin Booker skoraði 32 stig fyrir Phoenix og Luka Doncic 21 fyrir Dallas.

Meistarar Toronto Raptors unnu sinn áttunda leik í röð og Serbe Ibaka skoraði 24 stig gegn Atlanta Hawks og tók 10 fráköst.

Joel Embiid lék í treyju númer 24 hjá Philadelphia 76ers í sigri á Golden State, til að minnast Kobe Bryants, og skoraði 24 stig. Bryants var minnst á öllum leikjunum á einhvern hátt.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - New York 97:92
Philadelphia - Golden State 115:104
Cleveland - New Orleans 111:125
Toronto - Atlanta 130:114
Milwaukee - Washington 151:131
Memphis - Denver 104:96
Miami - Boston 101:109
Dallas - Phoenix 104:133
LA Lakers - LA Clippers frestað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka