Pippen æfur út í Jordan vegna Síðasta dansins

Scottie Pippen, til hægri, ásamt Shaquille O'Neal hjá Lakers.
Scottie Pippen, til hægri, ásamt Shaquille O'Neal hjá Lakers. AFP

Scottie Pippen er sagður æfur út í sinn gamla liðsfélaga Michael Jordan eftir að hafa séð hina gríðarlega vinsælu þáttaröð Síðasta dansinn, sem fjallar um leið þeirra með Chicago Bulls að sjötta meistaratitlinum í NBA-deildinni í körfuknattleik á átta árum.

Þáttaröðin er gerð af ESPN og sýnd á Netflix og Pippen er meðal þeirra sem koma fram í þáttunum.

„Hann er fokreiður út í Michael og hvernig hann er sýndur í þáttaröðinni, sagður eigingjarn, sagður þetta og hitt. Hann er sár yfir að hafa tekið þátt og ekki áttað sig á því út í hvað hann var að fara," sagði David Kaplan hjá ESPN í útvarpsþættinum Kap and Co.

Í nýjum viðtölum sem birtast snemma í þáttunum kallar Jordan samherja sinn eigingjarnan í deilum um samning og lætur í ljós efasemdir um mígrenið sem dró úr frammistöðu Pippens í sjöunda úrslitaleik Austurdeildarinnar árið 1990 þegar Chicago tapaði fyrir Detroit Pistons.

Þá er fjallað ítarlega um þá umdeildu ákvörðun Pippens að koma ekki aftur inn á völlinn á lokasekúndunum í þriðja leik Chicago í undanúrslitum Austurdeildarinnar gegn New York Knicks árið 1994 þegar ákveðið var að Toni Kukoc ætti að taka lokaskotið en ekki hann.

„Pippen finnst að allt þar til kemur að lokamínútunum í sjötta leiknum gegn Utah Jazz í úrslitunum 1998 hafi allt snúist um að niðurlægja hann,“ sagði Kaplan.

Þá hefur Horace Grant, framherji í liði Chicago í fyrstu þremur meistaraliðum félagsins, sagt að þáttaröðin hafi verið gerð til að láta þátt Jordans sýnast betri en hann var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert