Afdrifarík máltíð á nektardansstað

Lou Williams.
Lou Williams. AFP

Lou Williams, einn af atkvæðamestu leikmönnum Los Angeles Clippers, missir af fyrstu leikjum Clippers nú þegar NBA-deildin í körfuknattleik fer aftur af stað í lok mánaðarins. 

Williams hefur nú verið settur í einangrun og má gera sér að góðu að dúsa þar í tíu daga eftir að hafa brotið öryggisreglur sem settar voru af NBA en tuttugu og tvö lið munu hefja keppni á ný í Orlando á fimmtudaginn. 

Williams fékk leyfi til að yfirgefa æfingabúðir Clippers til að geta verið viðstaddur útför afa síns í Atlanta. Þeirri fjarveru hefði fylgt fjögurra daga sóttkví áður en hann hefði æft með liðinu á nýjan leik. 

Myndir náðust hins vegar af Williams á nektardansstað og eftir að þær fóru í dreifingu er ljóst að hann fer í tíu daga einangrun. Hann missir af stórleik því Clippers sem er með sterkt lið í vetur mætir grönnum sínum í Lakers. En einnig missir hann af leik gegn New Orleans Pelicans. Fjarvera Williams ætti að hafa nokkur áhrif því hann skoraði tæplega 19 stig að meðaltali í vetur áður en deildin fór í frí vegna kórónuveirunnar. 

Williams tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum og frásögn hans er athyglisverð því hann segist hafa heimsótt nektardansstað í þeim tilgangi að fá sér málsverð og hafa staldrað stutt við. Staðurinn sé uppáhaldsveitingastaður hans í borginni Atlanta og hann hafi ekki verið að skemmta sér heldur næra sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert