Njarðvíkingar ósáttir

Zvonko Buljan í leiknum umrædda gegn KR.
Zvonko Buljan í leiknum umrædda gegn KR. mbl.is/Arnþór Birkisson

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna úrskurðar aga og úrskurðarnefndar KKÍ í máli Zvonko Buljan, leikmanns liðsins, en hann var úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir hreðjatak í gær.

Buljan, sem er króatískur, greip þá í kynfæri leikmanns KR í leiknum en myndband af atvikinu sýndi með óyggjandi hætti að broti hafi verið framið sem hefði leitt til brottvísunar, hefði dómarinn séð það.

„Stjórn KKD UMFN mótmælti ekki kærunni til aga- og úrskurðarnefndar þegar hún var upphaflega send til félagsins enda áttu gjörðir Buljan sem hann er dæmdur fyrir ekkert erindi við körfuknattleik. Njarðvík harmar þessa hegðun leikmannsins og verður tekið á málinu innanbúðar með viðeigandi hætti,“ segir í fréttatilkynningu Njarðvíkur.

„Síðustu sex ár hafa sex leikmenn á Íslandi verið dæmdir í þriggja leikja bann eða meira. Ástæður hafa verið m.a. „hættuleg framkoma gagnvart dómurum leiksins.“ - „Sérlega grófur leikur eða ofbeldi.“ - „Alvarlega grófur leikur.“

Myndbandið sem farið var vel yfir í Körfuboltakvöldi sýnir svo að ekki verður um villst að sú var ekki raunin í viðureign KR og Njarðvíkur þann 3. október og því vill stjórn KKD UMFN hvetja stjórn KKÍ sem og aga- og úrskurðarnefnd til þess að endurskoða niðurstöðu sína í málinu,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Njarðvíkur en fréttatilkynningu í heild sinni má lesa með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert