Landsliðsmaður laus við veiruna

Haukur Helgi Pálsson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu.
Haukur Helgi Pálsson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu. mbl.is/Hari

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik og leikmaður Andorra í efstu deild Spánar, hefur náð sér af kórónuveirunni en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem KKÍ sendi frá sér.

Haukur Helgi er staddur í Andorra en hann er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Lúxemborg og Kosovó í forkeppni HM í Bratislava í Slóvakíu í vikunni.

Ísland leikur við Lúxemborg 26. nóvember og svo Kosovó tveimur dögum síðar, 28. nóvember, en til stóð að Haukur myndi hitta landsliðsfélaga sína í dag á hóteli íslenska liðsins í Bratislava.

Hann greindist með kórónuveiruna  í byrjun mánaðarins en gekkst undir annað próf fyrir helgi sem reyndist neikvætt. Þá  fór hann í mótefnamælingu þar sem staðfest var að hann væri með mótefni fyrir veirunni að því er fram kemur í frétt KKÍ.

„Mikil vinna fór í að ná saman lausum endum til að láta allt ganga upp og nú er það allt frágengið,“ segir í tilkynningu frá KKÍ.

„Það er því ljóst að allir leikmenn og starfsmenn komast í „búbbluna“ og verða klárir fyrir fyrsta leik gegn Lúxemborg,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert