Kærkominn sigur Njarðvíkur

Everage Richardson með boltann í kvöld. Logi Gunnarsson sækir að …
Everage Richardson með boltann í kvöld. Logi Gunnarsson sækir að honum. mbl.is/Skúli

Njarðvíkingar bundu enda á þriggja leikja taphrinu sína með sigri gegn ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld í Njarðvík. Lokatölur urðu 96:80 en Njarðvíkingar leiddu í hálfleik með 14 stigum. 

Njarðvíkingar voru betri aðilinn í leiknum í kvöld og þessi sigur þeirra verðskuldaður. ÍR var allt kvöldið að elta og lenti snemma undir, munur sem þeir í raun náðu aldrei að brúa. 

Stigahæstur hjá Njarðvík var Kyle Johnson með 25 stig en hjá ÍR var það Zvonko Buljan sem skilaði 21 stigi á sína fyrrverandi félaga. 

Það var augljós léttir á leikmönnum og í raun öllum Njarðvíkingum þegar lokaflautið gall í Njarðtaksgryfjunni og sigur loksins í höfn. Fyrir sálartetur Njarðvíkinga hefði það verið agalegt að ganga inn í komandi landsleikjahlé með fjögur töp í röð á bakinu.

Það var hinsvegar augljóst frá fyrstu mínútu leiksins að liðið ætlaði sér alls ekki að láta það gerast. Mario Matasovic framherji þeirra Njarðvíkinga byrjaði leikinn á bekknum sem kom á óvart en kappinn tók því með jafnaðargeði og þakkaði í raun fyrir með skínandi fínum leik eftir að hafa verið fremur týndur fyrir þá grænu í síðustu leikjum. 

Það var svo Kyle Johnson sem nýkomin er til liðs við Njarðvíkinga sem fór fyrir sínum mönnum. Kappinn setti 25 stig sem fyrr segir og var grimmur að sækja á körfuna. Hlutverkið sem hann á að fylla er það sem Maciej Baginski skilur eftir sig í meiðslum og kappinn virðist ætla að standa undir því. Það eina sem hægt er að setja út á Njarðvíkinga þetta kvöldið er að á tímum virtust þeir ætla að verja forskotið líkt og lið gera í fótboltanum þegar þau tefja.

Liðið hætti í raun að horfa á körfuna til að skora á meðan ÍR pressaði stíft og náðu nokkrum stolnum boltum í kjölfarið. Stórhættulegt í raun og hefði hæglega getað brugðið til beggja vona. ÍR-ingar voru í raun allt kvöldið hálf lánlausir. Þeir skoruðu sín fyrstu stig eftir 5 mínútur og voru á þeim kafla að klikka á prýðilegum færum. Ofan í vildi boltinn einfaldlega ekki fyrir þá. Á meðan skutu Njarðvíkingar þá í kaf og voru ÍR-ingar komnir fljótlega í 20 stiga holu í fyrri hálfleik.

Það er svo sem alveg hægt að tína nokkra góða hluti úr leik ÍR í kvöld, þeir áttu sínar rispur enn uppá vantaði töluvert til að næla í sigurinn mikilvæga. Zvonko Buljan fyrrum leikmaður Njarðvíking og nú í ÍR var að spila sinn annan leik fyrir þá og kappinn tekur mikið til sín og liðið þarf í raun svolítið að slípast í kringum hann. 

Hvort þetta sé leikmaðurinn sem þeir hafi þurft mun aðeins tíminn leiða í ljós. Undirritaður telur að koma hans til liðsins sé ansi dýrkeypt því sem fyrr segir þá er þetta leikmaður sem þarf sínar snertingar og skot sem riðlar upp öllu flæði liðsins. Njarðvíkingar sitja í 8. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan ÍR eru með 10 stig í 5. sæti deildarinnar. 

Gangur leiksins:: 7:0, 9:4, 16:6, 26:11, 36:18, 36:24, 45:26, 45:34, 49:36, 53:38, 62:42, 64:48, 73:51, 76:59, 90:68, 96:80.

Njarðvík: Kyle Johnson 25/10 fráköst, Mario Matasovic 20, Logi Gunnarsson 17, Rodney Glasgow Jr. 14/5 stoðsendingar, Antonio Hester 9/13 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 7, Ólafur Helgi Jónsson 4.

Fráköst: 25 í vörn, 4 í sókn.

ÍR: Zvonko Buljan 21/9 fráköst, Evan Christopher Singletary 19/5 fráköst, Collin Anthony Pryor 18/9 fráköst/5 stolnir, Everage Lee Richardson 11/6 stoðsendingar, Þorgrímur Kári Emilsson 4, Sigvaldi Eggertsson 4/6 fráköst, Danero Thomas 2, Sæþór Elmar Kristjánsson 1.

Fráköst: 23 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Sigurbaldur Frimannsson.

Njarðvík 96:80 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert