Elvar Már tryggði Íslandi sigur með flautukörfu

Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur í íslenska liðinu í dag.
Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur í íslenska liðinu í dag. FIBA

Íslenska landsliðið í körfuknattleik vann nauman 86:84 sigur gegn Lúxemborg í lokaleik fyrstu umferðar forkeppni HM 2023 í Pristína í Kósóvó í dag. Elvar Már Friðriksson skoraði þriggja stiga flautukörfu og tryggði Íslandi sigurinn.

Talsvert jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og var staðan jöfn, 11:11, þegar hann var hálfnaður. Íslenska liðið náði forystunni eftir það en hún var alltaf með minnsta móti. Undir lok leikhlutans tókst Íslandi að auka hana aðeins þegar Jón Axel Guðmundsson setti niður tvær þriggja stiga körfur í röð og Elvar Már Friðriksson skoraði tveggja stiga körfu og úr vítaskoti að auki. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 29:23, Íslandi í vil.

Í öðrum leikhluta herti íslenska liðið enn frekar tökin og hittu úr þriggja stiga skotum í hvívetna, þar á meðal fyrirliðinn Hörður Axel Vilhjálmsson úr tveimur í röð, auk þess sem Tryggvi Snær Hlinason var í góðu troðslustuði og skoraði tvær slíkar í leikhlutanum, en hann átti sömuleiðis eina góða troðslu einu í fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var alfarið eign Íslands og staðan því 57:43 í hálfleik.

Ef annar leikhluti var eign Íslands var því akkúrat öfugt farið í þriðja leikhluta. Hvorki gekk né rak í sóknarleik íslenska liðsins og Lúxemborg gekk að sama skapi afskaplega vel í sínum sóknaraðgerðum. 14 stiga forystan frá því í hálfleik var nánast að engu gerð og náði Lúxemborg að minnka muninn niður í aðeins tvö stig, 71:69.

Eftir þennan slæma leikhluta mætti íslenska liðið ákveðið til leiks í þeim fjórða og síðasta. Þegar tæpar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum hafði Lúxemborg aðeins skorað eitt stig á móti 10 stigum Íslands, 81:70.

Leikmenn Lúxemborgar tóku þó við sér og sneru taflinu við á meðan íslenska liðið hætti alfarið að skora, 81:82 var staðan þegar 13,7 sekúndur voru eftir á leikklukkunni. Liðin skiptust á að skora tveggja stiga körfur og tók Ísland leikhlé í stöðunni 83:84, þegar 7,8 sekúndur voru eftir á leikklukkunni. Elvar Már fékk þá boltann frá Herði Axel fyrir utan teig, setti niður glæsilega þriggja stiga körfu og tryggði Íslandi sigur, 86:84.

Tryggvi var stigahæstur Íslendinga með 25 stig, þar af 16 í fyrri hálfleik. Hann tók ekki jafn mörg fráköst og venjulega en á móti stigu samherjar hans upp í þeim efnum.

Jón Axel var næststigahæstur með 17 stig og náði tvöfaldri tvennu þar sem hann tók 10 fráköst, auk þess sem hann gaf 9 stoðsendingar.

Elvar Már var sömuleiðis öflugur og skoraði 16 stig auk þess að taka sjö fráköst. Fimm af stigunum hans 16 voru síðustu, afar mikilvægu stig Íslands í leiknum.

Ísland var þegar búið að tryggja sér sigur í B-riðli fyrstu umferðar forkeppninnar en með sigrinum á Lúxemborg ekki lengur möguleiki á að fylgja íslenska liðinu í aðra umferð forkeppninnar.

Stig Íslands: Tryggvi Snær Hlinason 25, Jón Axel Guðmundsson 17, Elvar Friðriksson 16, Kári Jónsson 8, Hörður Axel Vilhjálmsson 8, Sigtryggur Arnar Björnsson 8, Ólafur Ólafsson 2, Styrmir Snær Þrastarson 2, Gunnar Ólafsson, Tómas Þórður Hilmarsson.

Klukkan 18 í dag mætast Kósóvó og Slóvakía í hreinum úrslitaleik um að komast í aðra umferð forkeppninnar.

Lúxemborg 84:86 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert