Jón Arnór Stefánsson er hættur

Jón Arnór Stefánsson í leiknum í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Jón Arnór Stefánsson, besti körfuknattleiksmaður Íslands um langt árabil, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Þetta kom fram í viðtali við Stöð 2 Sport strax og oddaleik Vals og KR í átta liða úrslitum Íslandsmótsins lauk á Hlíðarenda í kvöld og hann staðfesti þennan ásetning sinn við mbl.is. Jón hafði íhugað að hætta eftir tímabilið 2018-2019 en lýsti því aldrei yfir eins og hann gerir nú. 

Valsmenn eru úr leik eftir ósigur gegn KR, 86:89. Jón Arnór lék þetta síðasta tímabil sitt með Val en hafði fram að því ekki leikið með öðru íslensku félagi en KR.

Jón Arnór verður 39 ára gamall í september og hefur leikið í meistaraflokki í meira en tvo áratugi. Meirihluta ferilsins lék Jón erlendis sem atvinnumaður í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Ítalíu og á Spáni. 

Á átta tímabilum hérlendis varð Jón Arnór fimm sinnum Íslandsmeistari með KR og einu sinni bikarmeistari. Hann varð Evrópumeistari með Dynamo St. Petersburg þegar liðið sigraði í Europe League árið 2005 og varð auk þess fyrstur Íslendinga til að spila í EuroLeague, sterkustu félagsliðakeppni í Evrópu. Jón Arnór varð annar Íslendingurinn á eftir Pétri Guðmundssyni til að fá samning hjá NBA-liði en hann var hjá Dallas Mavericks tímabilið 2003-2004. 

Jón Arnór varð ítalskur bikarmeistari með Napólí og lék til úrslita um ítalska meistaratitilinn með Roma. Hann lék jafnframt í undanúrslitum í efstu deild á Spáni með Unicaja Malaga og Valencia gegn Barcelona og Real Madríd. 

Jón var útnefndur íþróttamaður ársins árið 2014 af Samtökum íþróttafréttamanna. Hann lék 100 A-landsleiki og lék með landsliðinu á Eurobasket 2015 og 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert