Introvertinn þakklátur fyrir stuðninginn

Hörður Axel lætur vaða í leiknum í kvöld.
Hörður Axel lætur vaða í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hörður Axel Vilhjálmsson, leikstjórnandi Keflavíkur, segist hafa velt stöðunni töluvert fyrir sér í úrslitarimmunni þegar Þór Þ. hafði náð 2:0 forskoti. 

„Ég hef hugsað mikið um þetta eftir síðasta leik þegar við lentum 2:0 undir. Hef líka hugsað út í þetta út frá börnunum mínum. Þegar þau fá tækifæri til að horfa á þessa leiki þegar þau verða eldri þá geta þau alla vega séð að pabbi gefst aldrei upp, sama hvernig fer,“ sagði Hörður Axel þegar mbl.is tók hann tali í Keflavík í kvöld.

Hörður hefur ekki orðið Íslandsmeistari og neitar því ekki að hungrið sé til staðar. „Ég er svakalega hungraður í að verða meistari og mér líður alla vega betur en eftir fyrstu tvo leikina. Við erum sáttir við að hafa keypt okkur alla vega einn leik í viðbót með flottri frammistöðu í kvöld. Við reynum að byggja á því að ná góðri frammistöðu í 40 mínútur.“

Náðu að slaka aðeins á

Hver var helsti munurinn á frammistöðu Keflvíkinga í kvöld í samanburði við fyrstu tvo leikina frá hans bæjardyrum séð? 

„Ég held að það sé margþætt. Okkur tókst að dempa okkur aðeins niður. Okkur tókst að slaka aðeins á í sókninni og spila boltanum. Á sama tíma var ákefðin mjög mikil hjá okkur í vörninni og það var allt annað en í fyrstu tveimur leikjunum. Þá komu skorpur hjá okkur en við töluðum um að við þyrftum að vera grimmir allan leikinn og það tókst,“ sagði Hörður og hann býst við svipuðum leik á föstudaginn. „Við erum að berjast fyrir lífi okkar í úrslitakeppninni. Þannig er það bara. Við höfum komið okkur í þá stöðu en ætlum að gera allt sem við getum til að ná í oddaleik.“

Ekki sjálfgefið að fá þennan stuðning

Hörður var afar ánægður með stuðninginn á áhorfendapöllunum og bendir á að ekki sé sjálfgefið að fólk kæri sig um að hvetja lið áfram með miklum látum. 

„Þetta var stórkostlegt og maður getur líklega aldrei vanist því að spila í svona stemningu. Ég hef spilað víðs vegar um Evrópu og get sagt að úrslitakeppnin á Íslandi er öðruvísi. Hér eru oft svipað margir áhorfendur frá báðum liðum og því svipuð stemning hjá báðum liðum. Fyrir vikið er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í þessu. Ég er mjög þakklátur fólki fyrir að mæta og hvetja okkur áfram. Það er ekki sjálfgefið að fólk standi og öskri. Ég veit ekki hvort ég gæti haft mig í það sem dæmi því ég er svo mikill „introvert“. Með hverjum leiknum hefur stemningin orðið betri og fólki fjölgar í trommusveitinni. Á sama tíma taka fleiri þátt í hvatningunni í hverjum leik og manni virðist að nánast allir áhorfendur taki þátt í fjörinu sem er geggjað,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson í samtali við mbl.is en hann skoraði 11 stig, tók 6 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal boltanum þrívegis fyrir Keflavík.  

Hörður Axel með boltann í leiknum í kvöld.
Hörður Axel með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert