„Vá hvað ég var lasin“

„Ég gerði mér aldrei grein fyrir því hversu góð ég var,“ sagði Sylvía Rún Hálfdánardóttir, fyrrverandi landsliðskona í körfuknattleik, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sylvía Rún lagði skóna á hilluna á síðasta ári, þá 21 árs gömul, en hún var lögð í einelti af fullorðnum liðsfélaga sínum sem byrjaði þegar hún var að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki þrettán ára gömul.

Hún var greind með þráhyggju- og árátturöskun, kvíða og þunglyndi fjórum árum síðar og hefur þurft að vinna mikið í sjálfri sér undanfarin ár.

„Ég var að horfa á gamlan leik sem ég hafði spilað í fyrir hálfu ári síðan og það fyrsta sem ég hugsaði var vá hvað ég var lasin,“ sagði Sylvía.

„Ég var ótrúlega góð í þessum leik en mér fannst ég aldrei geta neitt á þessum tíma og ég fann aldrei fyrir neinu stolti.

Ég varð Norðurlandameistari með U16-ára landsliði Íslands árið 2014, var valin í úrvalslið mótsins og valin besti leikmaður mótsins, samt fann ég ekki fyrir neinu stolti þegar ég fékk bikarinn afhentan,“ sagði Sylvía meðal annars.

Viðtalið við Sylvíu Rún í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert