Fer ekki á Ólympíuleikana vegna kórónuveirusmits

Bradley Beal í leik Bandaríkjanna og Nígeríu á dögunum.
Bradley Beal í leik Bandaríkjanna og Nígeríu á dögunum. AFP

Bradley Beal, leikmaður Washington Wizards, hefur þurft að draga sig út úr liði Bandaríkjanna fyrir körfuknattleikskeppnina á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Beal greindist með kórónuveiruna og er kominn í einangrun en samkvæmt bandaríska körfuknattleikssambandinu er hann einkennalaus.

Hann var í byrjunarliði Bandaríkjanna í öllum þremur vináttulandsleikjum liðsins fyrir leikana en þeim fjórða sem fram átti að fara í kvöld, gegn Ástralíu, hefur verið aflýst af öryggisástæðum. Beal skoraði 17 stig í sigri liðsins gegn Ástralíu á þriðjudaginn.

„Þetta er mikill missir fyrir okkur. Bradley var búinn að spila mjög vel, var með allt á hreinu og féll afar vel inn í hópinn. Þetta er afar sárt fyrir hann," sagði Gregg Popovich, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna.

Bandaríska liðið á að spila gegn Spáni í lokaleik sínum fyrir leikana á  sunnudaginn en fyrsti leikurinn í Tókýó er gegn Frökkum 25. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert