Ótrúlegur leikur Grikkjans dugði ekki til

Giannis Antetokounmpo í leiknum í nótt.
Giannis Antetokounmpo í leiknum í nótt. AFP

Grikkinn Giannis Antetokounmpo var einu sinni sem áður í sérflokki hjá ríkjandi meisturum Milwaukee Bucks þegar liðið heimsótti Charlotte Hornets í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Antetokounmpo átti sannkallaðan stórleik og var með tvöfalda tvennu þegar hann skoraði 43 stig og tók 12 fráköst.

Það dugði þó ekki til þar sem Charlotte vann að lokum góðan 114:106-sigur.

Khris Middleton samherji Antetokounmpo náði einnig tvöfaldri tvennu með því að skora 27 stig og taka tíu fráköst. Middleton var nálægt þrefaldri tvennu þar sem hann gaf einnig níu stoðsendingar.

Terry Rozier var stigahæstur hjá Charlotte með 28 stig.

Alls fóru sex leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Charlotte - Milwaukee 114:106

LA Clippers - Memphis 108:123

Detroit - Orlando 97:92

Indiana - Utah 125:113

Boston - New York 99:75

Phoenix - Miami 100:123

mbl.is