Valur jafnaði Fjölni að stigum – Njarðvík með forskot

Ameryst Alston var stigahæst í liði Vals í kvöld.
Ameryst Alston var stigahæst í liði Vals í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Ameryst Alston átti stórleik fyrir Val þegar liðið skaust upp í annað sæti úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, með sigri gegn Fjölni í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Alston skoraði 27 stig í leiknum, tók sjö fráköst og gaf tíu stoðsendingar en leiknum lauk með 87:73-sigri Vals.

Valskonur voru mun sterkari í fyrri hálfleik, leiddu 26:12, eftir fyrsta leikhluta og voru komnar með þægilegt forskot strax í hálfleik, 48:24. 

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en Valur leiddi 74:48 fyrir fjórða leikhluta og Fjölni tókst aldrei að ógna forystu Valskvenna undir restina.

Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði 14 stig og tók 14 fráköst fyrir Val en Aliyah Mazyck var stigahæst í liði Fjölnis með 23 stig og tólf fráköst.

Valur er með 24 stig í þriðja sæti deildarinnar, líkt og Fjölnir, og eru liðin með fjögurra stiga forskot á Hauka sem eiga leik til góða á bæði lið.

Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 23 stig fyrir Keflavík í kvöld.
Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 23 stig fyrir Keflavík í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Þá styrkti Njarðvík stöðu sína á toppi deildarinnar þegar liðið vann tíu stiga sigur gegn Keflavík í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Leiknum lauk með 75:65-sigri Njarðvíkur þar sem Aliyah Collier skoraði 29 stig fyrir Njarðvík, tók 15 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Keflavík leiddi 22:16 eftir fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar voru sterkari í öðrum leikhluta og leiddu 41:36 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta þar sem Njarðvík leiddi með átta stigum að honum loknum, 55:47 og Keflavík tókst aldrei að ógna forskoti Njarðvíkinga af neinu viti í fjórða leikhluta.

Diane Diéné skoraði 12 stig og tók 10 fráköst fyrir Njarðvík en Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 23 stig.

Njarðvík er sem fyrr í efsta sætinu með 26 stig en Keflavík er með 14 stig í fimmta sætinu.

mbl.is