„Hvenær ætlum við að gera eitthvað?“

Steve Kerr á hliðarlínunni í leiknum í nótt.
Steve Kerr á hliðarlínunni í leiknum í nótt. AFP/Tom Pennington

Steve Kerr, þjálfari NBA-liðsins Golden State Warriors, vildi ekkert tala um körfubolta á blaðamannafundi fyrir leik þess gegn Dallas Mavericks í nótt. Þess í stað tók hann sér tíma til að fordæma endalaust byssuofbeldi í Bandaríkjunum.

„Ég ætla ekki að tala neitt um körfubolta í dag. Eftir að æfingu okkar lauk voru 14 börn drepin, 400 mílum héðan, og kennari,“ sagði Kerr og vísaði þar til skotárásar í Robb-grunnskólanum í Uvalde-bæ í Texas-fylki í gær.

Eftir blaðamannafundinn kom í ljós að fleiri væru látnir, að minnsta kosti 19 börn og tveir fullorðnir. Árásarmaðurinn, Salvador Ramos, er einn þeirra látnu og talið er að hann hafi einnig myrt ömmu sína áður en hann hélt í Robb-grunnskólann. Þá er mikill fjöldi fólks sært eftir skotárásina.

Kerr hélt áfram: „Síðustu tíu daga er búið að drepa aldrað þeldökkt fólk í stórmarkaði í Buffalo. Asískir kirkjugestir voru myrtir í Suður-Kaliforníu og nú er búið að myrða börn í skóla.“

Hann hefur löngum talað fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Faðir hans, Malcolm Kerr, var myrtur eftir banatilræði í Líbanon árið 1984, þegar Steve var 18 ára gamall.

„Hvenær ætlum við að gera eitthvað?“ hrópaði hann og barðist við að halda aftur tárunum. „Ég er þreyttur, ég er svo þreyttur á því að koma hingað og veita samúðarkveðjur til fjölskyldnanna sem eru í sárum.

Ég er svo þreyttur á afsökununum. Mér þykir það leitt. Ég er þreyttur á stundarþögnum. Þetta er komið gott. Það eru 50 öldungadeildarþingmenn sem neita því að kjósa um HR8, sem er frumvarp sem lýtur að bakgrunnsathugun [þeirra sem kaupa skotvopn] sem undirdeild þingsins samþykkti fyrir tveimur árum,“ hélt Kerr áfram.

Biðlaði hann svo til öldungadeildarþingmanna Bandaríkjanna að samþykkja frumvarpið í stað þess að einblína á eigin völd og setja þannig líf bandarískra barna, aldraðra og kirkjugesta ofar eigin hagsmunum.

„Við megum ekki verða dofin fyrir þessu. Við getum ekki bara setið hér og lesið um þetta og hugsað með okkur að jæja, núna skulum við hafa stundarþögn. Áfram Warriors. Áfram Mavericks.

Það er það sem við erum að fara að gera, við erum að fara að spila körfuboltaleik. Og 50 öldungadeildarþingmenn ætla að halda okkur í gíslingu. Þið áttið ykkur á því að 90 prósent Bandaríkjamanna, óháð því hvaða flokk það kýs, vill bakgrunnsathuganir?

50 öldungardeildarþingmenn neita að láta kjósa um frumvarpið, þrátt fyrir það sem við Bandaríkjamenn viljum. Þeir vilja ekki kjósa um það því þeir vilja halda eigin völdum. Það er aumkunarvert og ég hef fengið nóg!“ sagði Kerr, barði í borðið og rauk af blaðamannafundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert