Félagið stóð ekki við sinn hluta af samningnum

Isabella Ósk Sigurðardóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Isabella Ósk Sigurðardóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Isabella Ósk Sigurðardóttir samdi í gær við gríska félagið Panseraikos eftir stutta dvöl í Króatíu þar sem hún lék með Zadar Plus.

Isabella gekk til liðs við Zadar í haust en eftir einungis um sex vikur hjá félaginu er hún flutt til Grikklands þar sem hún mun leika út tímabilið með Panseraikos. Í samtali við mbl.is fer hún yfir það hvers vegna hún kaus að finna sér nýtt félag en Isabella segir að það hafi margt verið í ólagi í Króatíu.

„Þegar ég var búin að vera þar í tvær vikur þá sá ég að þetta var ekki fyrir mig, aðstæður ekki góðar, félagið ekki að standa við sinn hluta af samningnum og liðið ekki eins og var lagt upp með áður en ég samdi svo ég ákvað því að segja upp samningnum,“ segir Isabella en Zadar Plus er einungis þriggja ára gamalt félag, stofnað af fyrrverandi leikmönnum úr eldra félagi í borginni.

Skjáskot/Instagram

Isabella var framlagshæsti leikmaðurinn í íslensku úrvalsdeildinni í körfu þar sem hún lék með Njarðvík áður en hún hélt út til Króatíu. Hún segist einnig vera spennt að hefjast handa eftir skoðunarferð um aðstöðu liðsins.

Þekkti til í Grikklandi

Panseraikos leikur í B-deildinni í Grikklandi og er tímabilið þar nýhafið. Isabella segist hafa verið spennt fyrir því að flytjast til Grikklands og hafði hún verið í sambandi við forráðamenn félagsins áður.

„Mér finnst Grikkland mjög spennandi staður, þetta er lið sem ég var í viðræðum við áður en ég samdi og fór til Króatíu þannig að ég vissi að þau vildu fá mig. Körfuboltinn þar er mjög góður og það er mikil samkeppni svo þetta er gott tækifæri fyrir mig að verða enn þá betri og þróast sem leikmaður.“

Góð blanda af leikmönnum

Isabella er spennt fyrir komandi tímabili og er staðráðin í því að standa sig vel með nýja liðinu.

„Mér líst mjög vel á liðið, þetta er blanda af reyndum og efnilegum leikmönnum. Planið er auðvitað að vinna deildina og komast upp í efstu deild og við eigum mjög góðan möguleika á því. Þær eru búnar að spila tvo leiki og unnu þá báða þannig ég er mjög bjartsýn fyrir restinni af tímabilinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert